Allir þurfa að róa í sömu átt

Óli Halldórsson er formaður nýrrar þverpólitískrar nefndar um stofnun miðhálendisþjóðgarðs.
Óli Halldórsson er formaður nýrrar þverpólitískrar nefndar um stofnun miðhálendisþjóðgarðs. mbl.is/Valli

Gert er ráð fyrir að nýskipuð þverpólitísk nefnd um stofnun miðhálendisþjóðgarðs muni funda um það bil mánaðarlega næsta árið, en verklag nefndarinnar var kynnt á opnum fundi umhverfis- og auðlindaráðuneytisins í dag. Áætlað er að nefndin skili tillögum sínum um þjóðgarðinn í september á næsta ári.

„Það er knappur tími,“ segir Óli Halldórsson formaður nefndarinnar í samtali við mbl.is. Óli er sveitarstjórnarmaður Vinstri grænna í Norðurþingi og situr sem formaður nefndarinnar í umboði Guðmunds Inga Guðbrandssonar, umhverfisráðherra.

„Það þarf að vera sátt um að róa í sömu átt, pólitískt og það þarf að verða árangur í samráði við ansi marga á leiðinni,“ segir Óli. Hann segir að fulltrúar allra stjórnmálaflokkanna sem sitja á þingi komi að vinnu nefndarinnar með það markmiði að vinna hugmyndinni um miðhálendisþjóðgarð framgang.

„Ég held að það megi finna anga þessarar hugmyndar í ranni flestra stjórnmálaflokka. Þetta er önnur ríkisstjórnin í röð sem er með mögulegan miðhálendisþjóðgarð á dagskrá og það eru áherslur í þessa átt hjá flestum stjórnmálaflokkunum,“ segir Óli.

Þingmennirnir í nefndinni eru þau Líneik Anna Sævarsdóttir (Framsóknarfl.), Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Samfylkingu), Halldóra Mogensen (Pírötum), Bergþór Ólason (Miðfl.), Ólafur Ísleifsson (Flokki fólksins), Hanna Katrín Friðriksson (Viðreisn), Steingrímur J. Sigfússon (VG) og Vilhjálmur Árnason (Sjálfstæðisfl.). Einnig eiga tveir fulltrúar frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga sæti í nefndinni sem og einn fulltrúi forsætisráðuneytisins, auk Óla.

Horfa til reynslunnar af Vatnajökulsþjóðgarði

Fulltrúar fjölmargra hagsmunasamtaka voru á fundinum og meðal þeirra Snorri Ingimarsson, sem situr sem fulltrúi Samtaka útivistarfélaga í stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs. Hann hefur verið gagnrýninn á ýmsa þætti við fyrirkomulag og stjórnun þjóðgarðsins og ræddi þau mál við mbl.is í október síðastliðnum.

Snorri fékk orðið á fundinum og spurði þá Óla og Steinar Kaldal, verkefnastjóra hjá ráðuneytinu hvernig koma mætti í veg fyrir að nýr þjóðgarður yrði líkt og Vatnajökulsþjóðgarður „byggðastofnun dulbúin sem þjóðgarður“.

Snorri Ingimarsson frá Samtökum útivistarfélaga sagði sporin frá Vatnajökulsþjóðgarði hræða.
Snorri Ingimarsson frá Samtökum útivistarfélaga sagði sporin frá Vatnajökulsþjóðgarði hræða. mbl.is/Valli

Óli segir að horfi þurfi til reynslunnar af stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs við mótun nýja miðhálendisþjóðgarðsins.

„Það hefur margt gengið mjög vel í Vatnajökulsþjóðgarði, sérstaklega samráðsþátturinn allur, en það hafa líka verið vandamál. Það hafa verið ýmis vandamál og við horfum á það í þessu verkefni að það sé lykilatriði að líta á það sem tækifæri að geta horft til þess sem betur hefur gengið.“

Óli segir gríðarlega marga eiga mikla hagsmuni í tengslum við hinn fyrirhugaða þjóðgarð og að ljóst sé að það þurfi að vera breið nálgun að „verndar- og nýtingarplani“ fyrir svona stóran þjóðgarð, öðruvísi en hægt sé að gera með litla afmarkaða reiti.

Opið samtal á netinu

Samráðsgátt stjórnvalda verður nýtt jafn óðum og nefndin vinnur tillögur sínar. Þar getur allur almenningur glöggvað sig á þeim tillögum sem koma fram og gert við þær athugasemdir um leið og þær eru fram komnar.

„Við ætlum að reyna að vinna þetta þannig að jafnóðum og vinnunni vindur fram verði kynntir bútar inni í samráðsgáttinni og það geta allir komið með sínar athugasemdir þar. Við ætlum að reyna að hafa samtal afnóðum og vinnan fer fram, frekar en að gera það bara í bláendann.“

mbl.is