Sveitarstjórnarmenn ekki á einu máli

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég hef reyndar í tvígang átt aðild að ríkisstjórnum sem hafa sagt að það sé sjálfsagt að ræða borgarlínu eins og sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa kallað eftir. Í því felst að við viljum greiða fyrir betri almenningssamgöngum á höfuðborgarsvæðinu og við viljum að það samtal sé í samræmi við væntingar sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu.“

Þetta sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra á Alþingi í morgun þar sem hann brást við fyrirspurn frá Söru Elísu Þórðardóttur, varaþingmanni Pírata, um það í hverju stuðningur við Borgarlínu, sem kveðið væri á um í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar þar sem segir að stutt yrði við hana í samstarfi við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu, fælist og ennfremur út í ummæli hans í fjölmiðlum um að Borgarlína væri „tiltölulega óskilgreint fyrirbæri.“

Vilja ekki setja eina krónu í málið

Bjarni sagði málið hins vegar flækjast þegar rætt væri við sveitarstjórnarmennina. „Þegar maður sest hins vegar niður með sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu þá fær maður alveg óskaplega ólíka mynd eftir því við hvern maður talar. Ef maður til dæmis myndi renna sér inn í Garðabæ og tala þar við bæjarfulltrúa þá finnur maður ekki fyrir miklum áhuga á því að setja eina einustu krónu úr bæjarsjóði í að láta verkefnið verða að veruleika.“

Forgangsröðunin væri allt önnur í Hafnarfirði en í þágu Borgarlínu. „Fyrst þarf að klára mislæg gatnamótin við Reykjanesbrautina. Fyrst þarf að tvöfalda Reykjanesbrautina suður í Keflavík. Og það er ekki fyrr en þessi mál eru komin í farveg sem Hafnarfjörður segir við okkur í dag að þeir vilji fara að setja borgarlínu framar í forgangsröðina.“ Ef rætt væri við borgarstjórann í Reykjavík væri fullur kraftur í málinu af hans hálfu en ekki allra annarra.

„Þá eru menn komnir fram úr sér“

„Hvað getur maður annað sagt en að þetta samtal sé afskaplega skammt á veg komið? Þetta samtal hlýtur að sjálfsögðu að þurfa að eiga sér stað við samgönguráðherra sem hefur lýst því yfir að hann vilji horfa á málið heildstætt. Það sem ég vonast til þess að verði niðurstaðan er hvort tveggja í senn úrlausn á þeim helstu samgöngumannvirkjum eða þeim vandamálum sem við horfum fram á hér á höfuðborgarsvæðinu á sama tíma og greitt er fyrir betri almenningssamgöngum,“ sagði Bjarni ennefremur og bætti við:

„Þegar menn ríða fram á sviðið með hugmyndir um að það eigi að koma á næstunni 35 milljarðar úr ríkissjóði án þess að liggi fyrir nein heildstæð mynd um hvernig það samtal á að eiga sér stað eða hvað verði þá um önnur mikilvæg samgöngumannvirki og úrbætur í samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu, þá eru menn komnir fram úr sér. Það er það sem ég á við.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert