Blaut helgi í vændum

Erfitt verður að forðast rigninguna um helgina
Erfitt verður að forðast rigninguna um helgina mbl.is/Eggert

„Ef það er krafa að það sé þurrt alla helgina þá eru nú fáir staðir í boði,“ segir Daníel Þorláksson veðurfræðingur spurður um hvar megi búast við besta helgarveðrinu.

Spár gera ráð fyrir súld á köflum á vestanverðu landinu í dag en að í kvöld þykkni upp og fari að rigna.

Úrkomuskil ganga yfir landið í nótt og allan laugardag og á morgun er útlit fyrir rigningu á vesturhelmingi landsins en að þurrt verði austanmegin og skýjað.

Á sunnudaginn er spáð rigningu á köflum allt land en helst að það haldist þurrt á Austfjörðum.

Kólnar fyrir austan

Hlýtt hefur verið í veðri austan- og norðaustanlands síðustu daga og hiti mælst yfir 20 gráðum einhvers staðar á landinu nokkra daga í röð.

Á Egilsstöðum náði hitinn 20 stigum í dag en heldur svalara er vestan til, þar sem hiti er um tíu stig. Það kólnar aðeins á morgun og búist við 17-18 stiga hita um landið norðaustanvert en 8-10 stigum vestanlands.

Eftir helgi er von á að kaldari loftmassi komi yfir landið og kólnar norðan- og austanlands. Lítill vindur hefur verið víðast hvar á landinu síðustu daga og verður áfram svo um helgina.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert