Borgarlína „lykilmál“ fyrir borgina

Nýr meirihluti var kynntur með formlegum hætti við Breiðholtslaug í ...
Nýr meirihluti var kynntur með formlegum hætti við Breiðholtslaug í morgun. mbl.is/Árni Sæberg

Það kom aldrei upp sú krafa í viðræðum þeirra fjögurra flokka sem nú hafa myndað nýjan meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur að Dagur B. Eggertsson yrði ekki borgarstjóri í Reykjavík. Meirihlutinn var kynntur til leiks í rjóðri á milli Breiðholtslaugar og Fjölbrautaskólans í Breiðholti í morgun.

„Það var meira umræða um það í fjölmiðlum, en ekki í þessum formlegu viðræðum og ég held að við höfum öll nálgast þetta þannig að við þurfum á hvort öðru að halda og hafa jafnvægi á milli bæði fólks og flokka í samstarfinu og mér finnst það hafa náðst mjög vel,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri í samtali við mbl.is og bætir við að honum sýnist verkaskiptingin vera með þeim hætti að allur hópurinn sem að meirihlutanum komi muni njóta sín í sínum störfum.

Borgarlína er að sögn Dags forgangsmál hjá meirihlutanum, en að í samstarfsyfirlýsingu flokkanna sé það líka dregið fram að setjast þurfi niður með öðrum sveitarfélögum og ríkinu og ræða málið. Borgarstjóri gat því ekki svarað spurningu blaðamanns um það hversu mikið fé Reykjavíkurborg hyggst veita til verkefnisins á þessu kjörtímabili.

„Það þarf að tryggja líka fjármögnun frá ríkinu og það ræður að einhverju leyti hraðanum, en við erum mjög opin fyrir nýrri hugsun og nýrri lausnum í því. En þetta er lykilmál til þess að þróa ekki bara borgina heldur líka höfuðborgarsvæðið og verður þess vegna eitt af stóru málunum á þessu kjörtímabili,“ segir Dagur.

Aukin tíðni strætó og bætt kjör kennara

Í meirihlutasáttmálanum segir að strætó verði bættur og að tíðni á helstu stofnleiðum verði aukin í 7,5 mínútur á háannatímum í samstarfi við hin sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu. Mesta tíðni strætisvagna á höfuðborgarsvæðinu í dag eru 10 mínútur á ákveðnum leiðum á álagstímum.

 „Við þurfum líka að ræða það við hin sveitarfélögin en okkur fannst mikilvægt að segja svolítið skýrt að við erum ekki að velja á milli borgarlínu og öflugs strætó, þetta fer saman og í raun það að við séum að fara að fá borgarlínu á næstu árum kallar á að við þéttum strætónetið og gerum fólk vant því að búa við öflugar almenningssamgöngur,“ segir Dagur.

Í meirihlutasáttmálanum er rætt um að bæta kjör starfsfólks á leikskólum, grunnskólum og frístundaheimilum. Spurður að því hvort til greina kæmi að bæta kjör starfsmanna á þessum stofnunum Reykjavíkurborgar umfram það sem á er kveðið um í kjarasamningum Sambands íslenskra sveitarfélaga segir Dagur að þarna sé borgin að setja fram sína stefnu um bætt kjör þessara hópa, inn í samtal við önnur sveitarfélög og við sína viðsemjendur.

„Við erum að horfa á kjör kvennastétta, við erum að horfa til skólanna. En allt þarf þetta auðvitað að leysast á einu risastóru borði næsta vetur, þar sem meira og minna allir kjarasamningar í samfélaginu eru lausir,“ segir Dagur.

Lækka gjöld á barnmargar fjölskyldur en útsvar óbreytt

Meirihlutinn ætlar, í tilraunaskyni, að hafa einn leikskóla í hverju hverfi opinn allt sumarið til að tryggja að fjölskyldur hafi megi sveigjanleika um hvenær þær fara í frí. En mun þetta gerast í sumar?

„Ég get ekki slegið því föstu, en það er talað um að fara í þetta sem tilraunaverkefni og nýtt skóla- og frístundaráð þarf að setjast yfir það. Sumarið er hafið, þannig að það væri nú býsna bratt að byrja í sumar, en við skulum ekki slá neinu föstu með það,“ segir Dagur.

Það er sérstaklega tekið fram í sáttmálanum að útsvarsprósenta muni haldast óbreytt, en íbúar í Reykjavík greiða hámarksútsvar. En hvar ætlar meirihlutinn að lækka álögur á íbúa?

„Við erum að lækka álögur á barnmargar fjölskyldur með auknum systkinaafsláttum og svo erum við að lækka fasteignagjöld á atvinnuhúsnæði á seinni hluta kjörtímabilsins. Þetta voru þær línur sem voru lagðar,“ segir Dagur, en í sáttmálanum segir að systkinaafsláttir muni ná fyllilega á milli skólastiga.  

„Núna eru systkinaafslættir, þeir hafa ekki að öllu leyti náð á milli skólastiga, það hafa verið 50% afslættir yfir skólastig, þannig að þetta verður breyting  sem barnmargar fjölskyldur finna fyrir, þegar það koma 100% afslættir fyrir barn númer tvö,“ segir Dagur.

Laugavegurinn verði göngugata

Í sáttmálanum er talað skýrt um það að Laugavegurinn verði göngugata. En hvenær verður það og hvar mun göngugatan byrja?

„Nú förum við bara að undirbúa það, það er auðvitað stórt verkefni, nokkuð flókið og mjög margir hagsmunaaðilar sem koma að því, við þekkjum það úr sambærilegum verkefnum erlendis. Undirbúningur þess mun hefjast fljótlega en ég get ekki nákvæmlega tímasett það hvenær framkvæmdin hefst,“ segir Dagur og bætir við að það eigi eftir að útfæra það og að ýmislegt þurfi að ganga upp.

Einnig segir í sáttmálanum að göngusvæðum í Kvosinni verði fjölgað.

„Okkur finnst það spennandi umræða, en erum ekki búin að botna hana. Það eru ákveðnar götur eins og t.d. Kirkjustræti, þar sem hafa verið áhyggjur af mikilli rútuumferð í tengslum við nýtt hótel og nýja Hafnarstrætið sem er gullfallegt og eiginlega hrópar á það að verða göngugata, allavega að einhverju leyti,“ segir Dagur.

mbl.is

Bloggað um fréttina