Eggert og Else fá ríkisborgararétt

Systkinin Eggert og Elsa fæddust á Íslandi og fá að …
Systkinin Eggert og Elsa fæddust á Íslandi og fá að öllum líkindum ríkisborgararétt í bráð. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta eru yndislegar fréttir, við erum svo heppin,“ segir Eggert Einer Nielson, en allsherjarnefnd Alþingis lagði til í dag að 69 einstaklingar fengju íslenskan ríkisborgararétt og þeirra á meðal eru Eggert og systir hans Else Harriett Rosener Edwards. Þó áfanginn sé ekki í höfn enn sem komið er verður að telja ólíklegt að eitthvað standi nú í vegi fyrir því að systkinin verði íslenskir ríkisborgarar.

Eggert og Else fæddust á Íslandi á árunum 1957 og 1959 og áttu íslenska móður en danskan föður. Þau fluttu til Bandaríkjanna þegar Eggert var sjö ára gamall, en Eggert hefur ávallt haldið tengslum við landið og hefur búið hér á landi síðastliðin sjö ár, á Ísafirði og í Súðavík. Honum var hins vegar neitað um íslenskan ríkisborgararétt fyrr á þessu ári vegna þess að það var ekki fyrr en 1982 sem börn íslenskra mæðra fengu sjálfkrafa ríkisborgararétt, en ekki aðeins ríkisfang föður.

Eggert segir stuðninginn frá Íslendingum hafa verið frábæran. Hann tjáði mbl.is í febrúar síðastliðinn að hann og kona hans, Michelle Nielson, hefðu sett hús sitt á Ísafirði á sölu og hyggðust jafnvel flytja aftur til Bandaríkjanna til að komast í öryggi, einnig fyrir son þeirra, Eggert Thomas Nielson.

Þau plön hafa hins vegar breyst, en fjölskyldan stendur nú í flutningum til Langeyrar í Súðavík. Eggert ætlar svo að ferðast með syni sínum til Nashville í sumar þar sem sonurinn hyggst hefja háskólanám í tónlist og listgreinum.

En fyrst ætla þau að fagna ríkisborgararéttinum. „Við ætlum líklega á Húsið á Ísafirði í kvöldmat. Við höfum lagt mikið á okkur og það verður gott að taka smá pásu og fagna í dag.“

Eggert sagðist hafa verið bjartsýnn þegar hann vaknaði í morgun, en hann klæddi sig í bol sem á stendur „Born in Iceland“ og vinkona hans birti af honum mynd sem sjá má hér að neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert