Á margan hátt Píratalegur sáttmáli

Meirihlutasamstarfið var kynnt í Breiðholti í morgun.
Meirihlutasamstarfið var kynnt í Breiðholti í morgun. mbl.is/Árni Sæberg

Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata í borginni, segist mjög ánægð með meirihlutasáttmála Pírata, Samfylkingar, Viðreisnar og Vinstri grænna, sem kynntur var í morgun. Hún sjálf verður forseti borgarstjórnar fyrsta árið, en Pawel Bartoszek tekur svo við því embætti. Einnig mun Dóra Björt leiða mannréttinda- og lýðræðisráð borgarinnar, en þau mál eru henni afar hugleikin.

„Þau snúast um aðgengi allra að samfélaginu okkar, þetta snýst um að innflytjendur, fatlað fólk, allir minnihlutahópar, öll kyn, eigi að hafa sama sess í samfélaginu og sama aðgang að þjónustunni sem að borgin býður,“ segir Dóra í samtali við blaðamann mbl.is og bætir því við að fyrir henni sé ekkert lýðræði án jafnréttis.

Er blaðamaður spyr hvaða mál hún sé ánægðust með að Píratar hafi náð inn í sáttmálann verður henni í raun fátt um svör, þar sem málin eru að hennar sögn mörg.

„Ég myndi segja að þetta sé á margan hátt mjög Píratalegur sáttmáli. Við lögðum mikla áherslu á mannréttinda- og velferðarmál sem að endurspeglast mjög vel í sáttmálanum en svo er lýðræðiskaflinn líka mjög spennandi,“ segir Dóra Björt.

„Náttúrulegur meirihluti“

„Við ætlum að leggjast í það að rafvæða stjórnsýsluna og það er eitthvað sem Viðreisn hefur líka talað um, Viðreisn hefur verið að tala um betri þjónustu sem tónaði mjög vel við okkar áherslur um rafræna stjórnsýslu og við lögðum grunn að þeirri vinnu á síðasta kjörtímabili og erum mjög spennt að fylgja því eftir og keyra á það á þessu kjörtímabili,“ bætir hún við.

Létt var yfir nýjum meirihluta við kynninguna á morgun og Dóra Björt segir að það hafi ekki verið erfitt að ná saman.

„Nei, nefnilega ekki, af því að þetta var svona náttúrulegur meirihluti, það voru svo mörg mál sem sameinuðu okkur, svo þetta var ekki dýrkeypt. Það var þess vegna sem þetta var auðvelt og við vorum bara upptekin af því að allir myndu una sáttir við og fá að blómstra í þessu samstarfi og gætu unnið að sínum málum,“ segir Dóra Björt.

Hún segir að lagt hafi verið upp með það frá byrjun að allir myndu vera sáttir, sitji við sama borð og að vinnan fari fram á jafnræðisgrundvelli.

„Það byggir undir traustið á milli þessara flokka og það þarf að vera til staðar þegar þú ert með fjóra flokka í eins manns meirihluta,“ segir Dóra Björt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert