Vænta ekki þingloka í dag

Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar.
Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar. Ljósmynd/Aðsend

„Það er eiginlega erfitt að meta stöðuna eins og hún er núna. Menn eru að reyna að funda og átta sig á stöðunni. Það er alveg ljóst að mál sem einn stjórnarandstöðuflokkanna taldi sig hafa samið um, það er í uppnámi,“ segir Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar, í samtali við mbl.is. Þar með hafi skapast ákveðin óvissa um þinglok. Málið var rætt á Alþingi í dag þar sem hún sagði að staðan væri komin í uppnám.

Málið snýst um frumvarp þingmanna Miðflokksins um að húsnæðisliðurinn verði tekinn út úr mælingu á vísitölu neysluverðs í tengslum við útreikning á verðtryggingu. Meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis lagði til eftir aðra umræðu um málið að því yrði vísað frá þar sem þegar hefði verið samþykkt þingsályktun þess efnis að fjármálaráðherra verði falið að skipa hóp sérfræðinga til þess að leggja mat á áhrif þess að taka húsnæðisliðinn út úr vísitölunni.

Mikil umræða skapaðist á Alþingi í dag þar sem þingmenn Miðflokksins og fleiri þingmenn stjórnarandstöðunnar gagnrýndu frávísunartillöguna og sögðu þá afgreiðslu ekki vera í samræmi við samkomulag um þinglok. Málið fengi með þessu ekki hefðbunda þinglega meðferð með þremur umræðum og atkvæðagreiðslu. Stjórnarliðar mótmæltu þessu og sögðu frávísunartillagan þýða að greidd yrði atkvæði um málið.

Málið verið metið með ólíkum hætti

„Við erum að reyna að funda og það er verið að gera það jafnóðum. Það er verið að reyna að þoka málinu eitthvað áfram,“ segir Hanna Katrín. Fyrirhuguð afgreiðsla málsins sé ekki í samræmi við samkomulagið um þinglok að hennar mati. „Þar stendur kannski hnífurinn í kúnni að menn hafa kannski verið að meta það eitthvað mismunandi. Það hefur verið skilið eftir eitthvað grátt svæði í þeim efnum og um það snýst þetta.“

Hanna Katrín segist ekki skilja kerkju stjórnarliða. „Ég hefði haldið að það væri einfalt mál að höggva á þennan hnút en það er ekki búið að því ennþá. Við töluðum um það að við vildum að mál stjórnarandstöðunnar yrðu ekki bara afgreidd úr nefnd heldur fengju raunverulega afgreiðslu á þingi. Um þau yrðu greidd atkvæði. En þetta tiltekna mál er að fá á sig frávísunartillögu og það kalla stjórnarliðar afgreiðslu.“

Bjarkey Gunnarsdóttir, þingflokksformaður VG.
Bjarkey Gunnarsdóttir, þingflokksformaður VG. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hins vegar sé ljóst að ef frávísunartillagan er tekin fyrir fyrst þá sé málið ekki rætt við þriðju umræðu og síðan greitt um það atkvæði í þingsal. „Ég held að málið verði ekki leyst nema með því að hætta að hugsa um það hvernig málið komst hingað heldur einbeiti sér að því hvert haldið verði héðan og leysi það. Ég vona að við náum því, annars verða engin þinglok í dag. Ég óttast annars að sú verði raunin úr þessu.“

Það geti verið að fundin verði lausn á deilunni í dag en Hanna Katrín segist ekki halda að þinglok verði í kvöld eins og til hafi staðið.

Hafði nægan tíma til athugasemda

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingflokksformaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, segir í samtali við mbl.is fulltrúa Miðflokksins ekki hafa gert athugasemd við áformaða meðferð frumvarps þeirra um að taka húsnæðisliðinn úr vísitölu neysluverðs, í fjóra daga.

Hún segir meirihlutann ósáttann við tímasetningu athugasemda Miðflokksins, hugsanlega hefði verið hægt að komast að ásættanlegri niðurstöðu ef athugasemdir hefðu ekki borist korteri fyrir þingfund.

Spurð hvort hún telji að fjölda ræða þingmanna Miðflokksins í dag mætti flokka sem málþóf, segir Bjarkey: „Þeir eru klárlega að tefja þingstörfin.“ Óvíst er hvort náist sátt um framhaldið og að ekki er ljóst hvenær þinglok verða að sögn Bjarkeyjar. Hún bætir við að fyrir liggi að þingið muni ekki ljúka störfum í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert