15 mánuðir fyrir kynferðisbrot

Maðurinn var dæmdur í Landsrétti.
Maðurinn var dæmdur í Landsrétti. mbl.is/Hjörtur

Landsréttur dæmdi í síðustu viku karlmann á þrítugsaldri í 15 mánaða fangelsi fyrir kynferðisbrot, 12 mánuðir eru skilorðsbundnir vegna mikilla tafa á málinu. Héraðsdómur Suðurlands hafði dæmt manninn í þriggja mánaða fangelsi en saksóknari áfrýjaði dómnum.

Manninum er gefið að sök að hafa aðfaranótt 1. mars 2015 farið inn í svefnherbergi konu sem var gestkomandi í húsinu, strokið læri hennar og stungið fingri í leggöng gegn vilja hennar, en með því hafi ákærði notfært sér að brotaþoli hafi ekki getað spornað við verknaðinum þar sem hún var sofandi.

Konan fór með húsráðanda og vinafólki á veitingastað um kvöldið en yfirgaf staðinn á undan öðrum. Maðurinn kom ásamt öðrum í samkvæmi á efri hæð hússins og var þar fram á nótt. Að hans sögn yfirgaf hann staðinn upp úr klukkan tvö um nóttina ásamt öðrum en sneri til baka og fór inn á neðri hæð hússins þar sem brotaþoli gisti. Á atvikið sem ákæran lýtur að þá að hafa átt sér stað.

Maðurinn neitar sök. Fyrir dómi kannaðist hann þó við að hafa farið inn í svefnherbergið þar sem hann vissi hvar konan var og strokið læri hennar eins og rakið er í héraðsdómi. Hann neitar því hins vegar að sú snerting hafi verið af kynferðislegum toga.

Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að of mikill vafi léki á því að maðurinn hefði stungið fingri í leggöng brotaþola þannig að hafið væri yfir skynsamlegan vafa að það hefði gerst. Hann var því sýknaður af þeirri háttsemi í hinum áfrýjaða dómi.

Sú niðurstaða var meðal annars reist á því að framburður konunnar þótti ekki stöðugur um tilgreind atriði auk þess sem staðhæfing hennar um að hún hefði ekki tekið þátt í samkvæmi á efri hæð hússins stangaðist á við framburð vitnis og að nokkru leyti við það sem aðrir gestir töldu sig hafa orðið áskynja.

Þótti skorta á læknisfræðileg gögn

Þá þótti skorta á að læknisfræðileg gögn lægju fyrir í málinu. Maðurinn var aftur á móti sakfelldur fyrir að hafa strokið konunni um læri.

Konan gaf aftur skýrslu fyrir Landsrétti og var það á sama veg og í héraðsdómi. Kvaðst hún vera alveg viss um að hún hafi verið sofandi niðri þegar gesti bar að garði í húsinu og að hún hafi ekki verið viðstödd samkvæmið á efri hæð þess. Þá lýsti hún því að hún hafi vaknað við það að maðurinn hafi verið með höndina ofan í nærbuxunum með tvo fingur inni í leggöngunum „alveg á fullu“.

Engin orðaskipti hafi átt sér stað milli hennar og mannsins heldur hafi hún slegið til hans eftir að hún áttaði sig á aðstæðum en við það hafi hann farið.

Niðurstaða Landréttar er að maðurinn skuli sæta fangelsi í 15 mánuði en 12 af þeim verði skilorðsbundnir. Auk þess greiði hann fórnarlambinu 900 þúsund krónur í skaðabætur, 1.270.940 krónur í sakarkostnað og 1.008.780 krónur í áfrýjunarkostnað og málsvarnarlaun verjanda og þókun skipaðs réttargæslumanns brotaþola.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert