Að hafa mikla hjátrú á íslenska liðinu

Gylfi Þór Sigurðsson ræðir við fjölmiðlamenn á æfingu íslenska liðsins.
Gylfi Þór Sigurðsson ræðir við fjölmiðlamenn á æfingu íslenska liðsins. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Gestir Kabardinka, litla strandbæjarins við Svartahaf, þar sem íslenska landsliðið í fótbolta hefur bækistöð meðan á HM stendur, urðu ekki mikið varir við að í gær var þjóðhátíðardagur Rússlands. Að vísu var skotið upp flugeldum en slík sýning var einnig í boði á laugardags- og sunnudagskvöld.

Margt var um manninn á ströndinni í gær eins og síðustu daga, enda veðrið ákjósanlegt til slíkrar iðju. Heiðskírt, steikjandi hiti og dálítill blástur, þó ekkert í líkingu við rokið í fyrradag.

Íslensku leikmennirnir virkuðu sælir og glaðir á æfingunni í gærmorgun, nokkrir komu í viðtal við fjölmiðlamenn (eins og sjá má á íþróttasíðunum og á mbl.is), allir afslappaðir en þó vitaskuld fullir eftirvæntingar og bæjarbúar hér eru stoltir af að hýsa HM-lið. Sýna Íslendingunum mikinn áhuga.

Í fyrsta leik karlaliðs Íslands á stórmóti, EM 2016, mættu strákarnir Cristiano Ronaldo og samherjum í Portúgal en á laugardaginn verður argentínski snillingurinn Lionel Messi í hópi mótherjanna. Flestir spá argentínskum sigri, eins og eðlilegt má teljast, en Íslendingar eru þó hvergi bangnir.

Allt getur samt gerst. Einhvern tíma hefði þótt saga til næsta bæjar að forseti Bandaríkjanna og leiðtogi Norður-Kóreu mynduðu „sérstök tengsl“ og einfaldlega óhugsandi eftir stórskotahríð þeirri í millum á samfélagsmiðlum síðustu mánuði. Samt er afar kært þeirra á milli eftir sögulegan fund í Singapúr. Margir telja út í hött að gera ráð fyrir því að Ísland geti náð í stig gegn Argentínu á laugardaginn. Hvað þá sigrað.

Hjátrúarfullum má benda á að hér í Kabardinka er ekki sandströnd heldur tiplar fólk á steinvölum. Nákvæmlega eins og í Nice á frönsku rívíerunni, þar sem Ísland vann sigurinn sögulega á Englendingum á EM. Að vísu er ekki spilað við Argentínu í Kabardinka heldur í Moskvu. Gæti það samt ekki vitað á gott að íslenska liðið býr hér?

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert