Dvelur nánast öllum stundum á hótelinu

Hinrik Ingi hitti vini og kunningja í Moskvu fyrr í …
Hinrik Ingi hitti vini og kunningja í Moskvu fyrr í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kokkur landsliðsins nýtti frítíma sinn vel og spókaði sig um í Moskvu í morgun en hann kom þangað degi á undan íslenska landsliðinu í knattspyrnu. Hann segist hafa lítinn frítíma og sé að mestu leyti inni á hóteli að útbúa mat.

Hann og Þorgrímur Þráinsson, rithöfundur og landsliðsnefndarmaður, flugu á undan hópnum en landsliðið lenti í Moskvu um miðjan daginn.

„Þetta var eini möguleikinn minn til að fara niður í bæ,“ segir kokkurinn, Hinrik Ingi Guðbjargarson. „Þetta var eini tíminn fyrir mig til að skoða eitthvað annað en hótelið.

Kokkurinn nýtti frítímann vel í dag.
Kokkurinn nýtti frítímann vel í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hinrik sér um að leikmenn nærist vel á milli þess sem þeir búa sig undir átökin en strákarnir etja kappi við Lionel Messi og félaga hans í argentínska landsliðinu á laugardag. 

„Strákarnir eru mjög duglegir að borða,“ segir Hinrik og þylur upp matseðil strákanna sem óþarfi er að fara nánar út í hér.

Þessir verða vonandi sárir og svekktir eftir leikinn á laugardag.
Þessir verða vonandi sárir og svekktir eftir leikinn á laugardag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það eru algjör forréttindi að fá að taka þátt í þessu. Þetta er magnaður hópur og það er gaman að sjá hvað þetta er allt saman unnið af fagmennsku,“ segir Hinrik en hann var ekki með liðinu á Evrópumótinu fyrir tveimur árum. Hann hlakkar til leiksins á laugardag:

„Ég er spenntur og hef trú á því að við eigum eftir að standa okkur vel og trúi því að við náum hagstæðum úrslitum. Það er engin ástæða til að ætla annað. Við tökum stig, eitt eða fleiri. Ég hef trú á mínum mönnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert