Meiri mannekla og lengri sumarlokanir

Landspítali við Hringbraut.
Landspítali við Hringbraut. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Sumarlokanir á Landspítala verða talsvert lengri í ár en í fyrra, eða allt að tveimur til þremur vikum lengri, að sögn Önnu Sigrúnar Baldursdóttur, aðstoðarmanns forstjóra Landspítalans. Spegillinn á RÚV greindi fyrst frá.

„Þetta flækist hvert árið sem líður,“ segir Anna Sigrún, og staðfestir að aukinni manneklu sé um að kenna. Þörfin fyrir þjónustu eykst, meðal annars vegna öldrunar þjóðarinnar og fjölgunar ferðamanna. Á sama tíma fækkar hjúkrunarfræðingum.

Þó svo að lokanirnar verði lengri en í fyrra hefur tekist að halda svipuðu róli bæði á öldrunar- og geðdeild, auk þess sem fleiri rými verða opin yfir hásumarið en á síðasta ári. Alvarlegasta birtingarmynd ástandsins er nauðsyn þess að loka hjartagáttinni í heilan mánuð í sumar, en þar eru einkar sérhæfðir hjúkrunarfræðingar og því þarf að grípa til þess að færa bráðastarfsemina á bráðamóttökuna í Fossvogi.

„Um 80% rýma verða opin þegar mest er um lokanir. Við forgangsröðum verkefnum og því bráðara sem vandamálið er, því öruggari erum við um að sinna því. Við sinnum hjartastoppi áður en við sinnum beinbroti.“

Anna Sigrún segir forgangsröðunina í sumar kunna að verða þungbæra fyrir þá sem leita á bráðamóttöku, en ítrekar að þau vísi engum frá og að mikilvægt sé að fólk haldi ekki að það megi ekki leita til þeirra þó mikið sé að gera. „Þó að það sé mikið að gera hjá okkur þá að sjálfsögðu sinnum við bráðveiku fólki, til þess erum við og það munum við gera. Það er miklu verra ef það kemur ekki. Við metum alla og beinum þeim annað ef þeir þurfa ekki okkar þjónustu.“

„Sumarið verður okkur mjög þungt, það liggur fyrir að þetta verður erfitt. Við getum ekki annað gert en að standa saman, það er ekkert annað að gera. Þetta verður að ganga.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert