Argentínumaður sáttur við jafnteflið

Róbert Hugo og Heimir Hallgríms í síðustu tannlæknaheimsókn Róberts Hugo.
Róbert Hugo og Heimir Hallgríms í síðustu tannlæknaheimsókn Róberts Hugo. Ljósmynd/Sólrún Bergþórsdóttir

„Ég er mjög ánægður,“ segir Argentínumaðurinn Róbert Hugo Blanco sem fékk ósk sína uppfyllta í dag, en í viðtali við hann í Morgunblaðinu í morgun sagðist hann óska sér jafnteflis í viðureign Íslands og Argentínu á HM.

Róbert Hugo segir leikinn hafa verið mjög spennandi, og þá sérstaklega síðustu mínútur leiksins. „Ég vildi bara fá jafntefli, ekki neitt annað,“ segir Róbert Hugo í samtali við mbl.is. Hann neitar því að hafa vonað innst inni að Messi skoraði úr vítinu.

„Maður óskar sér að Argentínu gangi vel í gegnum þetta allt, en í leik gegn Íslendingum eru blendnar tilfinningar. Það er erfitt að ákveða sig, ég er búinn að eiga heima hér nánast allt mitt líf og vil vera Íslendingur. Ég vona að bæði liðin komist upp úr riðlinum.“

Róbert Hugo er ensku- og spænskukennari við Framhaldsskólann í Vestmannaeyjum og Heimir Hallgrímsson landsliðsþjálfari er tannlæknirinn hans. Róbert Hugo hefur verið búsettur á Íslandi síðan 1977 og er kvæntur Sólrúnu Bergþórsdóttur, sem ákvað að nýta tækifærið og taka ljósmynd síðast þegar Róbert Hugo fór til tannlæknis.

„Ég hafði leikinn í huga þegar ég ákvað að taka þessa mynd, það var ekki annað hægt en að taka mynd af þeim saman,“ sagði Sólrún í viðtali í Morgunblaðinu. „Það er svo einstakt að á þessari litlu eyju séu staddir bæði landsliðsþjálfari Íslands og Argentínumaður.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert