Keflavíkurflugvöllur sífellt betur tengdur

Á síðustu fimm árum hefur beinum tengingum um Keflavíkurflugvöll fjölgað …
Á síðustu fimm árum hefur beinum tengingum um Keflavíkurflugvöll fjölgað um 132,1%. mbl.is/Hari

Keflavíkurflugvöllur er á meðal þeirra flugvalla þar sem mest aukning hefur orðið í tengimöguleikum frá árinu 2008. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu sem alþjóðlegu flugvallasamtökin Airports Council International, ACI, sendu frá sér í dag.

Í skýrslunni kemur fram að tengimöguleikar Keflavíkurflugvallar hafi aukist um 1541% á síðustu tíu árum og að beinum tengingum frá vellinum hafi fjölgað um tæp 270% síðan árið 2008. Í skýrslunni segir jafnframt að með þessari aukningu sé Keflavíkurflugvöllur orðinn mikilvægur þáttakandi á alþjóðavísu í tengingum á milli heimsálfa.

Tölfræðin og greiningarnar í skýrslu ACI voru unnar af SEO Amsterdam Economics í Hollandi og gæði flugtenginga voru metin á grundvelli þriggja mælikvarða, beinum tengingum, óbeinum tengingum og tengimöguleikum safnvallar (e. hub connectivity).

Síðastnefndi mælikvarðinn metur þann fjölda tengifluga sem hægt er að tryggja greiðan aðgang að á viðkomandi flugvelli og meðal annars horft til tímans sem tekur að ná tengiflugi. Það er á þeim grundvelli sem hægt er að segja að tengimöguleikar Keflavíkurflugvallar hafi aukist um 1541% undanfarinn áratug.

Mikil aukning miðað við sambærilega velli

ACI flokkar flugvelli eftir stærð og ber þá þannig saman. Keflavíkurflugvöllur er í þriðja stærðarflokki með öðrum flugvöllum sem hafa 5-10 milljónir farþega á ársgrundvelli.

Á síðustu fimm árum hefur beinum tengingum fjölgað um 132,1% og trónir Keflavíkurflugvöllur á toppnum í þeim flokki. Ef horft er á síðasta áratug hefur aukningin verið tæp 270% og þar er Keflavíkurflugvöllur einnig á toppnum í sínum flokki.

Í fréttatilkynningu frá Isavia segir að markvisst hafi verið unnið að því að efla Keflavíkurflugvöll sem tengiflugvöll í samvinnu við þau flugfélög sem lenda á vellinum. Í dag eru áfangastaðir frá Keflavíkurflugvelli 101 og þar af eru 46 heilsársáfangastaðir.

„Fyrir fimm árum voru áfangastaðirnir 54, þar af 18 árið um kring. Í sumar fljúga 28 flugfélög til og frá Keflavíkurflugvelli og þar af 12 allt árið. Árið 2010 voru heilsársflugfélögin þrjú,“ segir í tilkynningunni og þar er jafnframt haft eftir Birni Óla Haukssyni forstjóra Isavia að mikilvægt sé að uppbygging Keflavíkurflugvallar geti haldið áfram, þannig að enn fleiri tækifæri til tenginga verði nýtt á komandi árum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert