Rúrik vekur athygli á armböndum Krafts

Hér virðist Rúrik skarta armbandinu á æfingu landsliðsins í Rússlandi.
Hér virðist Rúrik skarta armbandinu á æfingu landsliðsins í Rússlandi. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Landsliðsmaðurinn Rúrik Gíslason nýtir athyglina sem hann hefur hlotið á HM vel, en hann deildi mynd af sér með armband frá Krafti á Instagram-reikningi sínum og benti á Instagram-reikning Krafts í leiðinni. Eftir að Ísland hóf þátttöku á HM hefur heldur betur fjölgað í fylgjendahópi hans á samfélagsmiðlinum, en á þessari stundu er hann með rétt rúma hálfa milljón fylgjenda. Þeim fer fjölgandi með hverri mínútu.

Af Instagram-reikningi Rúriks.
Af Instagram-reikningi Rúriks. Ljósmynd/Skjáskot

Að sögn Huldu Hjálmarsdóttur, framkvæmdastjóra Krafts, varð allt vitlaust á Instagram-reikningi Krafts í kjölfar deilingar Rúriks. „Ég skildi ekkert hvað var í gangi í gær þegar síminn fór á fullt. Það er fullt af fólki að senda okkur skilaboð um hvernig þau geti nálgast armböndin og spyrja fyrir hvað þetta stendur.“

Hulda segir fjölda pantana hafa borist síðan Rúrik deildi færslunni, bæði erlendis frá og frá Íslendingum. Þó að HM-armböndin séu í takmörkuðu upplagi segir hún þau geta annað fyrirspurninni eins og er.

Hulda bendir á að armböndin verði til sölu á HM-torginu fyrir leik Íslands á HM, auk þess sem samstarfsaðilar Krafts á borð við Errea, Jóa Útherja, Útilíf og Ölver hafi verið með armböndin til sölu. Þá er hægt að kaupa armböndin í vefverslun Krafts og fá þau send heim að dyrum.

„Við erum Rúrik mjög þakklát fyrir að hafa sýnt stuðning í verki á þennan hátt,“ segir Hulda og er ánægð með stuðning íslensku landsliðsmannanna, en Aron Einar Gunnarsson fyrirliði hefur einnig sést skarta HM-armbandi Krafts á æfingum í Rússlandi.

Fyrirliðinn skartar HM-armbandi Krafts á æfingu í Rússlandi,
Fyrirliðinn skartar HM-armbandi Krafts á æfingu í Rússlandi, mbl.is/Eggert
Heimir Hallgrímsson landsliðsþjálfari perlar Kraftsarmbönd ásamt eiginkonu sinni, Írisi Sæmudsdóttur.
Heimir Hallgrímsson landsliðsþjálfari perlar Kraftsarmbönd ásamt eiginkonu sinni, Írisi Sæmudsdóttur. mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert