Fjölmennt á ráðstefnu Háskóla Íslands

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á setningu ráðstefnunnar fyrr í dag.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á setningu ráðstefnunnar fyrr í dag. Ljósmynd/ Kristinn Ingvarsson

Um 1.700 erlendir gestir eru komnir til landsins til þess að sækja ráðstefnu „EURAM“ sem stendur fyrir European Academy of Management. Ráðstefnan fer fram í Háskóla Íslands dagana 19.-22. júní og er það Viðskiptafræðideild skólans sem stendur fyrir henni en hún er ein sú stærsta sem haldin hefur verið hérlendis.

EURAM er þekkingarsamfélag háskóla í alls 49 löndum og miðar að því að efla rannsóknir og þekkingarsköpun í viðskiptafræði. Ráðstefnan ber yfirskriftina „Research in Action- Accelerating knowledge in creation in management“ og hefur verið í undirbúningi í tæp tvö ár.

Tekið var á móti ráðstefnugestum á Háskólatorgi síðdegis í gær en formleg setning ráðstefnunnar fór fram í Háskólabíói fyrr í dag. Í framhaldinu tók svo við umræðufundur þar sem fjallað var um árangursríkt samstarf háskóla og atvinnulífs. Ráðstefnunni líkur svo á föstudag með umræðufundi um sjálfbærni þar sem Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands, verður aðalfyrirlesari.

Á ráðstefnunni verða svo kynntar um 1.200 rannsóknir innan ólíkra sviða viðskiptafræðinnar auk þess sem boðið er upp á vinnustofur fyrir bæði fræðimenn og fólk í atvinnu- og viðskiptalífinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert