Gott veður fyrir leik Íslands á móti Nígeríu

Landsliðið á æfingu á Volgograd Arena í dag. Á morgun …
Landsliðið á æfingu á Volgograd Arena í dag. Á morgun spila strákarnir við Nígeríu og verður leikurinn sýndur víða á risaskjáum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Búist er víð fínu veðri víðast hvar á landinu um klukkan þrjú á morgun þegar strákarnir í íslenska landsliðinu hefja leik á móti Nígeríu á HM í Rússlandi. Leikurinn verður sýndur á skjáum undir berum himni á ýmsum stöðum á landinu, bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni.

Björn Sævar Einarsson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segist ekki eiga von á rigningu eins og á laugardag þegar Ísland spilaði á móti Argentínu. Hann reiknar með því að það haldist þurrt víða á landinu en það „gæti verið einhver súldarvottur á vestanverðu landinu“.

Í Reykjavík og nágrenni verður líklegast skýjað en það ætti að haldast þurrt. Hitinn verður um 10 gráður en ekki er víst hvort að sólin láti sjá sig eða ekki.

„Besta veðrið er á Austurlandi. Það verður léttskýjað á austanverðu landinu og hlýtt. Yfir 20 stiga hiti á Egilsstöðum,“ segir Björn Sævar.

Á Akureyri verður um 14 gráðu hiti en vindur gæti náð 7 metrum á sekúndu með hviðum. Á Vesturlandi verður suðvestlæg átt og skýjað en lítil úrkoma. Á Suðurlandi verður skýjað en ætti að haldast þurrt og búist er við 10 stiga hita.

Risaskjáir víða um land

Leikur Íslands á morgun verður sýndur á risaskjáum víða um land eins og leikur Íslands á móti Argentínu.

Í Reykjavík verður hann sýndur, eins og allir leikir Íslands á mótinu, á HM-torgi í Hljómskálagarðinum þar sem boðið verður upp á veitingar og aðstöðu fyrir unga sem aldna. Leikurinn verður sömuleiðis sýndur á Ingólfstorgi, við Vesturbæjarlaug og á markaðnum Box í Skeifunni. Þá hefur Bryggjan brugghús sett upp risaskjá fyrir utan staðinn og verður leikurinn bæði sýndur þar og inni á staðnum.

Í Garðabæ verður leikurinn sýndur á risaskjá á Garðatorgi og hægt verður að kaupa veitingar á svæðinu. Á Thorsplani í Hafnarfirði verður leikurinn einnig sýndur á risaskjá og verður veitingasala á svæðinu.

Góð mæting var á Thorsplan í Hafnarfirði síðasta laugardag þrátt …
Góð mæting var á Thorsplan í Hafnarfirði síðasta laugardag þrátt fyrir rigningu. Ljósmynd/Aðsend

Áfram verður sýnt frá leikjum Íslands á risaskjá í Reykjanesbæ. Í skrúðgarðinum fyrir framan Ráðhús Reykjanesbæjar verður sýnt frá leiknum og hægt verður að kaupa kjötsúpu, chili-rétt og góða drykki þar.

Í Vestmannaeyjum verður leikurinn sýndur á Stakkagerðistúni á 17 fermetra risaskjá líkt og leikur Íslands á móti Argentínu.

Á Akureyri verður áfram hægt að sjá leikinn á risaskjá í Listagili. Þá verður komið fyrir skjá í sundlaug Akureyrar og hægt verður að horfa á leikinn úr heitum potti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert