Ók á 210 km hraða

Ökumaður bifhjóls var stöðvaður á Suðurlandsvegi við Lögbergsbrekku um níuleytið í gærkvöldi eftir að lögregla hafði mælt hjólið á 210 km/klst. 

Ökumaðurinn viðurkenndi 180 km/klst., að því er segir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Hann er einnig grunaður um önnur umferðarlagabrot, t.d. brot gegn banni við framúrakstri, skráningarmerki ógreinilegt o.fl. Ökumaðurinn var sviptur ökuréttindum til bráðabirgða og afhenti ökuskírteini sitt.

Lögreglan stöðvaði bifreið á Reykjanesbraut við Stekkjarbakka í gærkvöldi. Ökumaðurinn er grunaður um ölvun við akstur og ofbeldi gegn lögreglu. Hann er vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu. 

Mikið var um akstur undir áhrifum vímuefna á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og nótt líkt og flestar nætur að undanförnu.

Klukkan 18:00 stöðvaði lögreglan bifreið við Hjallabraut. Ökumaðurinn reyndist vera sviptur ökuréttindum, ítrekað brot.

Klukkan 21:33 var bifreið stöðvuð við Suðurfell. Bifreiðin reyndist vera ótryggð og voru skráningarmerki klippt af.

Klukkan 21:21 var bifreið stöðvuð á Vesturlandsvegi við Vínlandsleið. Ökumaðurinn er grunaður um ölvun við akstur.

Klukkan 22:08 stöðvaði lögreglan bifreið á Reykjanesbraut við Álfabakka. Ökumaðurinn er grunaður um ölvun við akstur og að aka sviptur ökuréttindum.

Klukkan 02:05 var bifreið stöðvuð á Breiðholtsbraut. Ökumaðurinn er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum áfengis og fíkniefna. Farþegi er grunaður um vörslu fíkniefna.

Klukkan 04:06 stöðvaði lögreglan bifreið á Bæjarhálsi. Ökumaðurinn er grunaður um ölvun við akstur og að aka sviptur ökuréttindum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert