Björg ráðin bæjarstjóri á ný

Björg Ágústsdóttir, nýr bæjarstjóri Grundarfjarðar.
Björg Ágústsdóttir, nýr bæjarstjóri Grundarfjarðar. Ljósmynd/Aðsend

Björg Ágústsdóttir hefur verið ráðin sem nýr bæjarstjóri Grundarfjarðarbæjar, en hún var áður bæjarstjóri í 11 ár. Gengið var frá þessu á fyrsta fundi nýkjörinnar bæjarstjórnar í dag og var tillaga um ráðninguna samþykkt samhljóða. Tekur hún við af Þorsteini Steinssyni sem hefur gegnt embættinu. Greint er frá ráðningunni í tilkynningu frá bæjarfélaginu. 

Björg er Grundfirðingur, lögfræðingur að mennt, með mastersgráðu í verkefnastjórnun, MPM, og diplóma í opinberri stjórnsýslu og stjórnun. Björg var bæjarstjóri í Grundarfirði á árunum 1995-2006. Björg hefur frá 2006 starfað hjá Ráðgjafarfyrirtækinu Alta með aðsetur í Grundarfirði. Hún hefur auk þess kennt stefnumótun o.fl. á styttri og lengri námskeiðum. Björg hefur gegnt margvíslegum trúnaðarstörfum samhliða störfum sínum, bæði á vettvangi sveitarstjórnarmála og nú síðari árin m.a. í íþróttastarfi og í skólanefnd Fjölbrautaskóla Snæfellinga.

Björg mun hefja störf 9. ágúst samkvæmt tilkynningunni. 

Í bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar sitja 7 bæjarfulltrúar, frá L-lista, Samstöðu - lista fólksins og frá D-lista Sjálfstæðisflokks og óháðra, en sá síðarnefndi fékk meirihluta atkvæða í nýliðnum sveitarstjórnarkosningum.

Á fundi bæjarstjórnar var Jósef Kjartansson, oddviti D-listans, kjörinn forseti bæjarstjórnar og Hinrik Konráðsson, oddviti L-listans, varaforseti bæjarstjórnar. Rósa Guðmundsdóttir, D-lista verður formaður bæjarráðs og Hinrik af L-lista verður varaformaður bæjarráðs. Kosið er til eins árs í senn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert