Skeytingarleysi gagnvart kjarastefnu

Samtök atvinnulífsins.
Samtök atvinnulífsins. mbl.is/Ófeigur

„Við höfum gagnrýnt aðferðafræði kjararáðs og teljum að hún standist enga skoðun,“ segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins (SA), um úrskurð kjararáðs í málum 48 forstöðumanna ríkisstofnana. Hann segir samtökin fagna því að kjararáð hafi kveðið upp sinn síðasta úrskurð.

Kjararáð úrskurðaði um hækkun launa um að meðaltali 10,8% hjá forstöðumönnunum 48 þann 14. júní en úrskurðurinn var birtur í gær.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Halldór vill ekki tjá sig um einstaka úrskurði kjararáðs enda séu þeir afar ógagnsæir og krefjist mikillar yfirlegu. Halldór segir SA reglulega hafa gagnrýnt aðferðafræði og störf kjararáðs. „Það eru tveir þættir sem við höfum gagnrýnt með reglulegu millibili, annars vegar er það afturvirkni ákvarðananna, sem SA leggjast auðvitað alfarið gegn, og hins vegar þessi vísitölubinding launa sem við höfum gagnrýnt harðlega. Sú gagnrýni stendur óhögguð.“

„Ákvarðanir kjararáðs eru í engu samhengi við almenna þróun á vinnumarkaði hvort sem horft er til skemmri eða lengri tíma. Ákvarðanir kjararáðs hafa sýnt skeytingar- og tillitsleysi við þá kjarastefnu sem mótuð hefur verið í landinu í samstarfi aðila vinnumarkaðar og stjórnvalda.“

Hann segir að hafa þurfi í huga að laun á almennum vinnumarkaði hafi hækkað um 3% 1. maí síðastliðinn. Úrskurðir kjararáðs séu í engu samræmi við þann veruleika. „Fram undan eru erfiðir kjarasamningar og úrskurðir kjararáðs reka enn einn fleyginn inn í það verkefni í heild sinni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert