Reglan hefur verið að menn sæti farbanni

Hætta er á að menn í framsalsferli fari úr landi …
Hætta er á að menn í framsalsferli fari úr landi áður, sæti þeir ekki farbanni. Myndin sýnir inngang dómsmálaráðuneytisins. mbl.is/Ófeigur

„Til þess að tryggja nærveru manna á meðan meðferð framsalsmála á hendur þeim stendur hefur reglan verið sú að þeir sæti farbanni,“ segir í skriflegu svari embættis ríkissaksóknara við fyrirspurn mbl.is, en tilefni fyrirspurnarinnar var úrskurður Landsréttar frá því í fyrradag, þar sem því var hafnað að pólskur ríkisborgari sem yfirvöld í heimalandi hans vilja fá framseld yrði áfram í farbanni hérlendis.

„Séu menn ekki í farbanni eða gæsluvarðhaldi er auðvitað sú hætta fyrir hendi að þeir geti farið úr landi áður en framsalmálið er til lykta leitt,“ segir ennfremur í svari embættisins, en ríkissaksóknari fór fram á að maðurinn yrði áfram í farbanni, þar sem ætla mætti að hann reyndi að komast úr landi, leynast eða koma sér með öðrum hætti undan málsókn sem bíði hans í Póllandi.

Maðurinn er eft­ir­lýst­ur þar í landi fyr­ir brot sem geta varðað allt að 12 ára fang­elsi sam­kvæmt pólsk­um lög­um, grunaður um vörslu, sölu og dreif­ingu á nokkru magni af fíkni­efn­um, þar á meðal einu kílói af kanna­bis­efn­um og tals­verðu magni af am­feta­míni.

Rúmir sjö mánuðir eru síðan framsalsbeiðni barst frá pólskum yfirvöldum og samkvæmt svörum frá bæði dómsmálaráðuneytinu og embætti ríkissaksóknara getur afgreiðsla framsalsbeiðna tekið allt frá nokkrum mánuðum og upp í rúmt ár, en málsmeðferðartíminn fer eftir eðli og umfangi mála.

Dómstólarnir sögðu ekki unnt að láta manninn sæta áframhaldandi farbanni þar sem dómsmálaráðuneytið hefði ekkert lagt fram „um rann­sókn ráðuneyt­is­ins eða frek­ari meðferð þess á framsals­beiðni varn­araðila“ frá því að ríkissaksóknari lauk rannsókn sinni þann 3. janúar síðastliðinn og skilaði öllum gögnum til ráðuneytisins.

„Mál þetta hefur ekki tekið óvenju langan tíma,“ segir í svari dómsmálaráðuneytisins við fyrirspurn mbl.is.

Embætti ríkissaksóknara tekur ekki afstöðu til niðurstöðu dómstólanna í þessu máli að öðru leyti en því að þetta sýni „mikilvægi þess að passa upp á málsmeðferðartímann“.

Fimm til fimmtán framseldir árlega

Samkvæmt svari dómsmálaráðuneytisins við fyrirspurn blaðamanns má gróflega áætla að um 5-15 einstaklingar hafi verið framseldir til erlendra ríkja á hverju ári síðastliðin tíu ár, en nákvæmar upplýsingar um það liggja ekki fyrir.

Sömuleiðis liggur ekki fyrir að svo stöddu hversu margir einstaklingar eru í framsalsferli á þessu augnabliki, en gróflega má áætla að nú séu til meðferðar 7-10 mál, samkvæmt ráðuneytinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert