Keyrði ölvaður á strætisvagni

Vagninum hafði verið keyrt á tvær aðrar bifreiðar og upp …
Vagninum hafði verið keyrt á tvær aðrar bifreiðar og upp á hringtorg. mbl.is/Hjörtur

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst tilkynning um umferðaróhapp á gatnamótum Dalvegar og Smiðjuvegar á sjötta tímanum í gær. Hafði strætisvagni verið ekið á miklum hraða inn í hringtorg á tvær bifreiðar og upp á umferðareyju. Er ökumaðurinn grunaður um ölvun við akstur og var vistaður í fangageymslu lögreglu.

Ökumaður og farþegar í annarri bifreiðinni kvörtuðu um eymsli í hálsi og höfði og þurfti að flytja aðra bifreiðina með dráttarbíl af vettvangi.

Fjölmörg önnur mál komu upp hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt, en lögreglan hafði afskipti af sjö öðrum atvikum þar sem ökumenn eru grunaðir um að hafa verið undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna.

Þá var tilkynnt í gærkvöldi um par í annarlegu ástandi á Nýbýlavegi í Kópavogi sem hafði ekið bifreið sinni í veg fyrir aðra bifreið, ráðist á bílstjóra hinnar bifreiðarinnar og skemmt hjólhýsi sem hann var með. Voru þau handtekin og vistuð í fangageymslu.

Þá hafði lögregla afskipti af ungri konu við Höfðabakka í gær sem viðurkenndi að hafa verið undir áhrifum fíkniefna, en í bifreiðinni voru auk hennar tvö börn konunnar, 1 og 4 ára, og var málið tilkynnt barnavernd.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert