7 evra komugjald fyrir fólk utan Schengen

7 evrur munu ferðamenn frá ríkjum utan Evrópusambandsins og annarra Schengen-ríkja þurfa að greiða til að sækja Ísland heim, frá árinu 2020 gangi áætlanir eftir.

Stefnt er að því að taka upp rafræn ferðaleyfi á Schengen-svæðinu, svipuð þeim sem fyrir eru í Bandaríkjunum, árið 2021, en það hefur fengið nafnið ETI­AS (Europe­an Tra­vel In­formati­on and Aut­horisati­on System).

Evr­ópuþingið samþykkti áætlunina fyrir helgi en kerf­inu, sem hef­ur verið í und­ir­bún­ingi um nokk­urt skeið, er ætlað að auka ör­yggi inn­an álf­unn­ar og bæta gagnagrunna evrópsku lögreglunnar Europol.

Samkvæmt upplýsingum frá dómsmálaráðuneytinu, sem fer með málefni landamæraeftirlits og Schengen, munu íbúar frá svokölluðum þriðju ríkjum, ríkjum utan ESB og Schengen, þurfa að sækja um rafrænt ferðaleyfi áður en Ísland eða önnur Schengen-ríki eru heimsótt og greiða fyrir það 7 evrur, tæpar 900 krónur. Leyfið mun gilda til þriggja ára í senn og er frítt fyrir börn.

Kerfið mun þó engin áhrif hafa á Íslendinga eða aðra borgara ESB og Schengen-ríkja hvar sem þeir eru búsettir í heiminum.

Landamæraeftirlit á Orly-flugvelli í París.
Landamæraeftirlit á Orly-flugvelli í París. AFP

„ETIAS-kerfinu er ætlað að auka öryggi á Schengen-svæðinu þar sem landamæraeftirlit með ytri landamærum svæðisins styrkist og verður skilvirkara. Betur verður hægt að greina ógnir við öryggi og þá sem misnota áritunarfrelsi sitt inn á svæðið,“ segir Sigríður Andersen dómsmálaráðherra innt eftir viðbrögðum.

Hún segir vonir standa til þess að kerfið geti orðið til þess að fjöldi tilhæfulausra umsókna um alþjóðlega vernd í löndunum innan Schengen-svæðisins dragist saman.

Íslensk stjórnvöld taka þátt í mótun

Farþegar sem þurfa leyfið munu þurfa að fylla út ra­f­rænt eyðublað þar sem þeir gefa upp per­sónu­upp­lýs­ing­ar á borð við nafn, fæðing­ar­dag og stað, kyn og þjóðerni auk upp­lýs­inga um hversu lengi verður dvalið á svæðinu. Þá verða, rétt eins og í banda­rísku um­sókn­inni, spurn­ing­ar um saka­skrá og hvort farþeg­arn­ir hafi ferðast til átaka­svæða.

Reglugerðin um ETIAS-kerfið telst þróun á Schengen-regluverkinu og hefur Ísland sömu aðkomu að lagamótun og aðildarríki ESB, að því er fram kemur í svari dómsmálaráðuneytisins við fyrirspurn mbl.is.

Íslensk stjórnvöld tóku virkan þátt í mótun reglugerðarinnar og starfa tæknimenn ríkislögreglustjóra með framkvæmdastjórn ESB og öðrum Schengen-ríkjum að tæknilegum útfærslum kerfisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert