Öskraði undir áhrifum LSD á 14 ára stúlku

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Ófeigur

Karlmaður á þrítugsaldri hefur verið ákærður af embætti héraðssaksóknara fyrir ólögmæta nauðung og barnaverndarlagabrot fyrir að hafa hlaupið á eftir 14 ára gamalli stúlku, gripið í úlpuermi hennar og haldið henni fastri meðan hann öskraði á hana. Kom íbúi í nærliggjandi húsi stúlkunni til bjargar og fór með hana inn í íbúð sína þar sem maðurinn reyndi svo að ryðjast inn þannig að halda þurfti hurðinni.

Fram kemur í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur að maðurinn hafi verið sjáanlega undir áhrifum fíkniefna og kvað hann alla skynjun sína hafa verið brenglaða umræddan dag eftir að hafa tekið LSD.

Hann játaði brot sitt skýlaust og hefur í kjölfar þess leitað sér aðstoðar og lagði fram sálfræðivottorð því til staðfestingar.

Dómurinn telur manninn bera ábyrgð á gjörðum sínum þrátt fyrir að hafa verið undir áhrifum, en að óhóflegur dráttur á málsmeðferðinni leiði til þess að refsingu yfir manninum verði frestað og falli niður að tveimur árum liðnum.

Þarf maðurinn að greiða lögfræðikostnað eigin lögmanns og rúmlega 230 þúsund í sakarkostnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert