Afi sýknaður af ákæru um kynferðisofbeldi

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Ófeigur

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað karlmann af ákæru um kynferðisbrot gegn barnabarni sínu. Dómurinn klofnaði í málinu en meirihluti dómsins taldi ákæruvaldið ekki hafa axlað þá sönnunarbyrði sem á því hvíli við að sýna fram á sekt mannsins.

Allir dómararnir þrír töldu framburð stúlkunnar trúverðugan en framburð afans ótrúverðugan. Maðurinn var hins vegar sýknaður þar sem trúverðugur framburður stúlkunnar fékk ekki næga stoð í gögnum málsins.

Afinn var ákærður fyrir að hafa ótal sinnum, frá því að stúlkan var fimm ára gömul, þar til hún var tólf eða þrettán ára gömul, á tímabilinu 2007-2015, snert ber kynfæri stúlkunnar og látið hana snerta ber kynfæri hans og látið hana fróa honum, með því að nýta sér yfirburði sína gagnvart stúlkunni og traust hennar og trúnað til hans sem afa hennar.

Einn dómaranna skilaði séráliti þar sem kemur fram að hann tekur ekki undir þá ályktun meirihluta dómsins að ákæruvaldið hefði ekki axlað þá sönnunarbyrði sem á því hvílir. Í álitinu bendir dómarinn á að það sé hafið yfir skynsamlegan vafa að stúlkan hefði um langt skeið átt við mikla vanlíðan að stríða og að hún hafi sýnt af sér sjálfskaðandi hegðun sem ummerki eru um á höndum hennar.

Bendir dómarinn á að í gögnum málsins kemur fram að brotaþoli hafði samband við hjálparsíma Rauða krossins 12. maí 2016, áður en hún greindi fyrst frá brotum ákærða, þar sem hún lýsti vanlíðan og að hún væri að skaða sig. Þá lýsti hún því að foreldrar hennar hefðu vitað af þessu, án þess þó að hún greindi frá ástæðum vanlíðunar og sjálfskaðandi hegðunar.

Þá ber framburði móður og föður stúlkunnar einnig saman um að hún hafi verið farin að stunda sjálfskaðandi hegðun áður en málið kom upp. 

Dómur Héraðsdóms. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert