Orsök fiskadauða í Varmá er óþekkt

Tveir fiskar fundust dauðir í Varmá.
Tveir fiskar fundust dauðir í Varmá. Ljósmynd/Heilbrigðiseftirlit Kjósarsvæðis

Heilbrigðiseftirliti Kjósarsvæðis barst í fyrradag tilkynning um fiskadauða í Varmá í Mosfellsbæ. Þetta kemur fram á vef eftirlitsins. Við athugun fundust tveir dauðir fiskar, sem voru fjarlægðir, en ekki fundust fleiri líflausir fiskar við nánari athugun ofar í ánni. Þá segir Þorsteinn Narfason, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Kjósarsvæðis, í samtali við Morgunblaðið að ekki hafi verið tilkynnt um fleiri dauð dýr í eða við Varmá.

„Það er ekki hægt að fullyrða neitt að svo stöddu en út frá því að við höfum ákveðna reynslu í þessum málum álítum við að þarna hafi verið einhver efni sem hafa farið í regnvatnslögn og þannig í ána,“ svarar Þorsteinn spurður um hver sé helsta tilgáta eftirlitsins um fiskadauðann.

Regnvatnslagnir Mosfellsbæjar liggja út í Varmá og lítið þarf til að valda usla í lífríki árinnar vegna þess hve vatnslítil hún er. „Til dæmis ef fólk er að tjöruþvo bíla við húsin sín, eða jafnvel að skola málningaráhöld. Ég tala nú ekki um að tæma heita potta, sem eru þá ranglega tengdir í regnvatnslagnir. Það allt getur haft slæm áhrif á lífríki árinnar. Það er langhlaup hjá okkur að koma þessum málum í lag,“ segir Þorsteinn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert