Júlí líklega „vel blautur“

Það hefur varla farið fram hjá íbúum á Suður-, Suðvestur- og Vesturlandi að sumarmánuðirnir þar hafa verið ansi vætusamir. Úrkoma í maímánuði var sú mesta sem mælst hefur frá upphafi mælinga í Reykjavík, eða 128,8 millimetrar. Í Stykkishólmi mældist úrkoman 113,2 mm, sem er það mesta sem hefur mælst þar síðan 1875, að því er kemur fram í samantekt Veðurstofu Íslands á tíðarfari í maí. Gera má ráð fyrir að júlímánuður verði sömuleiðis „vel blautur,“ segir Óli Þór Árnason, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við Morgunblaðið í dag.

Hressilegt regn væntanlegt

„Þó svo að ekki myndi vera mikil úrkoma það sem eftir lifir mánaðar þá myndi hann líka fara í þann flokk yfir afar úrkomusama júlímánuði,“ segir Óli um vætutíðina. „Hressilegrar“ viðbótar af rigningu er að vænta í kvöld og í nótt og er sú úrkoma ekki hluti af leifum fellibylsins Chris, en það vatnsveður mun gera vart við sig á sunnudag. „Þetta er í raun úrkomubakki sem ýtir á undan sér, sem önnur smálægð sem er stödd suðvestur af Hvarfi sendir til okkar áður en leifar Chris ganga yfir landið. Lægðinni fylgir lítill vindur en hins vegar mikil rigning,“ segir Óli um veðrið sem gengur yfir í kvöld. Í næstu viku mega íbúar sunnan- og vestanlands þó vænta betra veðurs, ef marka má veðurspá.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert