Áhrif hvalveiða verði tekin út

Katrín Jakobsdóttir á ríkisstjórnarfundi á Snæfellsnesi í dag.
Katrín Jakobsdóttir á ríkisstjórnarfundi á Snæfellsnesi í dag. mbl.is/Valli

Fara verður í mat á umhverfisáhrifum og dýraverndunarsjónarmiðum, en einnig samfélagslegum áhrifum og áhrifum á íslenskt efnahagslíf áður en leyfi til hvalveiða verður úthlutað að nýju. Þetta segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.

Þegar horft er til efnahagsáhrifa verði að líta til þess hvort ábati af hvalveiðum vegi þyngra fyrir þjóðarbúið en þau neikvæðu áhrif sem veiðarnar hafa á ímynd Íslands.

Hvalveiðitímabilið nú er það síðasta á fimm ára tímabili, sem hófst árið 2013 þegar Sigurður Ingi Jóhannsson, þáverandi sjávarútvegsráðherra, úthlutaði kvóta til Hvals hf. Katrín segir að ekki verði tekin ákvörðun um úthlutun nýrra leyfa fyrr en að slíkri úttekt lokinni. Henni yrði því lokið áður en næsta hvalveiðitímabil myndi hefjast.

Hlustum ekki á þjóðir sem drepa menn

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir aðspurður að ekki sé auðvelt að segja til um hvort ábati Íslendinga af hvalveiðum vegi þyngra í efnahagslegu tilliti en áhrifin af neikvæðri umfjöllun um veiðarnar á alþjóðavettvangi.

Hann bendir þó á að háværar raddir hafi verið uppi um það árið 2013, þegar hvalveiðar voru hafnar að nýju, að áhrif ákvörðunarinnar á ferðaþjónustu yrðu slæm. „Komur ferðamanna til landsins hafa í millitíðinni margfaldast, þannig að ég á erfitt með að sjá að þær hrakspár hafi gengið eftir,“ segir Bjarni.

Það fór vel á með Lilju Alfreðsdóttur og Bjarna Benediktssyni …
Það fór vel á með Lilju Alfreðsdóttur og Bjarna Benediktssyni að ríkisstjórnarfundi loknum. mbl.is/Valli

Þá þýði ekki aðeins að líta til jákvæðra og neikvæðra afleiðinga af því að hætta veiðum heldur einnig mikilvægis þess fyrir sjálfstæða þjóð að taka sínar eigin ákvarðanir á grundvelli laga og alþjóðlegra skuldbindinga en láta ekki þrýsta sér til að taka ákvarðanir vegna þess að einhverjir aðrir vilja það.

„Síst af öllu finnst mér að við eigum að hlusta á þjóðir sem eru með svo margt á samviskunni sem er alvarlegra en hvalveiðar,“ segir Bjarni og nefnir í því skyni Bandaríkin, sem reglulega beiti Ísland þrýstingi vegna hvalveiða á alþjóðavettvangi en aflífi fólk með reglulegu millibili.

„Við eigum að hlusta á skoðanir þrýstihópa og alþjóðasamfélagsins, en þeir ráða ekki niðurstöðunni.“

Enn óvíst með steypireyðina

Deilt er um hvort hvalur sem veiddur var og dreginn á land í Hvalfirði fyrir rúmri viku hafi verið steypireyður, sem er friðaður, eða blendingur, afkvæmi steypireyðar og langreyðar. Steypireyðurin er friðuð og  sekt liggur við því að veiða hana. Engin lög ná hins vegar utan um blendinga og er veiði á þeim því lögleg.

„Það er auðvitað stranglega bannað að skjóta hval af verndaðri tegund og við því eru viðurlög,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. Við bíðum niðurstöðunnar úr þessari DNA-rannsókn og við verðum bara að sjá hvað kemur út úr því.

17 erlendir sérfræðingar telja dýrið steypireyði

Erlendir hvalasérfræðingar og dýraverndunarsamtök hafa í erlendum miðlum slegið því á föstu að dýrið sé steypireyður en talsmenn Hvals hf. segja dýrið blending og sjávarlíffræðingur hjá Hafrannsóknastofnun hefur sagt að svo líti út fyrir, af myndum að dæma. DNA-greining mun leiða hið sanna í ljós en þó ekki fyrr en með haustinu.

17 erlendir hvalasérfræðingar sendu í dag frá sér yfirlýsingu þess efnis að þeir teldu að dýrið hafi í raun verið steypireyður ekki blendingur, en yfirlýsingin var send fyrir hönd hópsins Stop whaling in Iceland.

Ein þeirra, dr. Marianne Rasmussen, stýrir hvalarannsóknarsetri Háskóla Íslands á Húsavík, og bréfið er merkt skólanum. Marianne er þó eini vísindamaðurinn við íslenska stofnun sem ritar undir bréfið, sem finna má í heild sinni hér að neðan.

Dýrið sem annaðhvort er hreinræktuð steypireyður eða afkvæmi steypireyðar og …
Dýrið sem annaðhvort er hreinræktuð steypireyður eða afkvæmi steypireyðar og langreyðar. Ljósmynd/Hard To Port
mbl.is

Bloggað um fréttina