Isavia ósammála niðurstöðunni

Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Flugstöð Leifs Eiríkssonar. mbl.is/Sigurður Bogi

„Isavia vill taka það fram að farið verður að ákvörðun Samkeppniseftirlitsins og gjaldtöku hætt strax í dag.“ Þetta kemur fram í tilkynningu frá Isavia en fyrr í dag úrskurðaði Samkeppniseftirlitið að Isa­via ohf. skyldi tíma­bundið hætta gjald­töku á ytri rútu­stæðum (fjar­stæðum) við Flug­stöð Leifs Ei­ríks­son­ar meðan Sam­keppnis­eft­ir­litið skoðar kæru Gray Line. 

Í fréttatilkynningu Isavia kemur fram að félagið vilji koma á framfæri sjónarmiðum sínum varðandi þessa ákvörðun, hvaða áhrif hún hefur og hver raunveruleg samkeppnisstaða Keflavíkurflugvallar er. 

„Eitt af brýnustu verkefnum sem Isavia stendur frammi fyrir er uppbygging Keflavíkurflugvallar sem alþjóðaflugvallar. Isavia er félag í eigu ríkisins og hefur sjálfstæðan fjárhag og verður því að fjármagna alla uppbyggingu og rekstur Keflavíkurflugvallar með gjaldtöku,“ kemur fram í tilkynningunni.

Þar segir enn fremur að félagið hafi hagað gjaldtökunni í samræmi við íslensk lög og alþjóðlegar skuldbindingar Íslands og leiðbeiningar alþjóðastofnana og að fyrirkomulagið sé í samræmi við hvernig rekstri og uppbyggingu flugvalla í Evrópu og Ameríku sé háttað.

„Isavia er meðvitað um það mikilvæga hlutverk sem félagið gegnir í samgöngum Íslendinga við umheiminn og leggur áherslu á að stuðla áfram að kröftugri uppbyggingu og þjónustu við alla þá sem um fara um Keflavíkurflugvöll.“

Isavia er ósammála niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins og mun andmæla ákvörðuninni og leita leiða til þess að hún verði endurskoðuð. Fyrirtækið telur rannsókn málsins byggða á ófullnægjandi upplýsingaöflun og rökstuðningi.

Isavia mun endurgreiða hópferðafyrirtækjum þau gjöld sem innheimt hafa verið frá því innheimta hófst komi í ljós að gjaldtakan hafi verið óheimil. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert