Sjálfsagt að bjóða Kjærsgaard

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis.
Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis. mbl.is/​Hari

Forseti Alþingis harmar að heimsókn danska þingforsetans, Piu Kjærsgaard, hafi verið notuð til að varpa skugga á hátíðarhöldin á Þingvöllum í gær þegar hátíðarfundur var haldinn í tilefnis þess að þá voru 100 ár liðin frá und­ir­rit­un sam­bands­samn­ings um full­veldi Íslands, sem tók svo gildi 1. des­em­ber 1918.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá forseta Alþingis, Steingrími J. Sigfússyni.

„Forseti Alþingis hefur um nokkurra mánaða skeið undirbúið þingfundinn á Þingvöllum, og rætt undirbúninginn jöfnum höndum við forsætisnefnd og formenn þingflokkanna,“ kemur fram í tilkynningunni.

Þar segir enn fremur að sjálfsagt hafi þótt, í ljósi tilefnisins, að forseti danska þingsins yrði í sérstöku hlutverki á þessum hátíðarfundi. Danska þingforsetanum var því boðið til landsins sem fulltrúa gagnaðila að fullveldissamningunum. 

Þingflokkur Pírata sniðgekk fundinn vegna komu Kjærsgaard og þá gekk Helga Vala Helgadóttir, þingkona Samfylkingar, af þingpalli þegar Kjærsgaard hóf ávarp sitt.

„Forseti Alþingis harmar að heimsókn danska þingforsetans hafi verið notuð til að varpa skugga á hátíðarhöldin og leyfir sér að trúa því að það sé minnihlutasjónarmið að viðeigandi sé að sýna danska þingforsetanum óvirðingu þegar hann sækir okkur heim og kemur fram fyrir hönd danska Þjóðþingsins og dönsku þjóðarinnar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert