Göngukona fannst fljótt

Horft niður á Dyngjufjöll og Kverkfjöll.
Horft niður á Dyngjufjöll og Kverkfjöll. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Björgunarsveitir af Austfjörðum og Norðausturlandi voru kallaðar út í kvöld eftir að tilkynning barst um að konu væri saknað í Kverkfjöllum. Mikill viðbúnaður var vegna þessa, en konan fannst þó skömmu seinna, heil á húfi. Þetta kemur fram á Facebook-síðu lögreglunnar á Norðurlandi eystra.

Tilkynningin barst laust fyrir kl. 20, en konan hafði ætlað að ganga að upptökum Jökulsár við Dyngjujökul. Hún hafði ekki skilað sér á tilsettum tíma í Sigurðarskála í Kverkfjöllum og félagar konunnar tilkynntu það og héldu svo til leitar.

Lögreglan á Norðausturlandi var með eftirlitsbifreið á Dyngjusandi við Öskju og hún var send af stað og einnig hálendisvaktin í Drekagili við Öskju. Björgunarsveitir voru ræstar út og einnig þyrla var með fjallabjörgunarmenn, en svæðið í Kverkfjöllum er erfitt yfirferðar og getur verið þungt til leitar, að því er segir í tilkynningu lögreglu.

Sem betur fer fannst konan fljótlega heil á húfi, en hún hafði tafist á göngu sinni að Sigurðarskála.

„Göngumönnum er hyggjast ganga einir í óbyggðum er bent á SafeTravel.is og að láta vita um ferðir sínar fyrirfram og gefa upp komutíma og tilkynna þegar þeir koma í hús og ljúka ferð,“ segir lögreglan á Norðurlandi eystra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert