Guns N' Roses mætt á Laugardalsvöll

Aðgangi að Laugardalsvelli var lokað um hádegi og gripu fjölmiðlamenn …
Aðgangi að Laugardalsvelli var lokað um hádegi og gripu fjölmiðlamenn til þess örþrifaráðs að koma sér fyrir á húsþaki nálægt vellinum til að sjá hvernig undirbúningi miðar. mbl.is/​Hari

Liðsmenn Guns N' Roses eru að öllum líkindum mættir á Laugardalsvöll og eru að hefja undirbúning fyrir tónleikana í kvöld sem verða þeir stærstu í íslenskri tónlistarsögu, segir Björn Teitsson, upplýsingafulltrúi Solstice Productions, sem sér um skipulagningu tónleikanna.

Öryggisgæsla hljómsveitarinnar hefur tekið öll völd á svæðinu af íslensku skipuleggjendunum og enginn utanaðkomandi fær aðgang að vellinum. Liðsmenn hljómsveitarinnar hafa verið þekktir fyrir að vera fjölmiðlafælnir með eindæmum í gegnum tíðina.

Blaðamaður og ljósmyndari mbl.is höfðu mælt sér mót við Björn á Laugardalsvelli í hádeginu til að taka út lokaundirbúning fyrir tónleikana. Undirbúningurinn hefur verið gríðarlega umfangsmikill og hefur staðið yfir rúmlega viku. Um 200 manns hafa komið að honum með einum eða öðrum hætti.

Öryggisgæslan aukin til muna

Rétt í þann mund sem blaðamaður mætti á svæðið var honum tilkynnt að öryggisgæslan hefði aukist til muna og það væri ekki lengur í boði að fá aðgang að svæðinu. Hvorki var möguleiki að komast inn á Laugardalsvöllinn sjálfan né inn á svæðið í kringum hann en búið er að girða af gríðarlega stórt svæði hér í Laugardalnum.

Björn Teitsson, upplýsingafulltrúi Solstice Productions, telur að búið sé að …
Björn Teitsson, upplýsingafulltrúi Solstice Productions, telur að búið sé að selja um 25.000 miða af þeim 26.900 sem sýslumaður veitti leyfi fyrir. mbl.is/​Hari

Blaðamaður mbl.is, ásamt öðrum fjölmiðlamönnum, greip til þess örþrifaráðs koma sér fyrir á húsþaki nálægt vellinum til að sjá hvernig undirbúningi miðar. Þaðan var hægt að sjá risastórt sviðið sem sett hefur verið upp en það er 65 metra breitt og yfir 20 metra hátt. Að auki er búið að koma fyrir glæsilegum risaskjá fyrir ofan sviðið og svokölluðum „delay-turnum“ sem sjá til þess að hljóðið berst jafnt og þétt til allra áhorfenda.

Björn telur að búið sé að selja um 25.000 miða af þeim 26.900 sem sýslumaður veitti leyfi fyrir. Það verður því vel mætt á þessa sögulegu tónleika í kvöld og má búast við magnaðri sýningu frá hljómsveitinni enda tónleikarnir í kvöld þeir síðustu í Evróputúr sveitarinnar og líklegt að sveitin vilji enda túrinn með hvelli.

Hljómsveitin sjálf kom til landsins í gærmorgun og hafa liðsmenn hennar notið lífsins í Reykjavíkurborg síðan þá. Vitað er að þeir heimsóttu Pönksafn Íslands og þá sást til gítarleikarans Slash á Hlemmi mathöll í gær, en þá átti hann einmitt afmæli.

Ætla að skoða Ísland eftir tónleikana

Guns N‘ Roses ætla að vera áfram á landinu eftir tónleikana og skoða Ísland en það er í fyrsta skipti sem þeir staldra einhvers staðar við á meðan þeir hafa verið að túra um Evrópu.

Laugardalsvöllur opnar klukkan hálffimm í dag og mun hljómsveitin Brain Police hefja upphitun um sexleytið. Guns N‘ Roses byrjar að spila klukkan átta og mun spila fram eftir kvöldi.

Áður hefur komið fram að fagmennskan hafi skinið í gegn hjá sveitinni á Evróputúrnum og má því reikna með að þeir mæti stundvíslega og spili í um það bil þrjár klukkustundir.

Skipuleggjendur hvetja fólk til að mæta stundvíslega á svæðið og til þess að nota almenningssamgöngur enda er eins og áður segir búið að girða af gríðarlega stórt svæði í kringum völlinn, þar á meðal bílastæðið fyrir framan Laugardalsvöllinn.

Allt er að verða klárt á Laugardalsvelli fyrir tónleika Guns …
Allt er að verða klárt á Laugardalsvelli fyrir tónleika Guns N' Roses. Ljósmynd/Aðsend
Sviðið er mikilfenglegt.
Sviðið er mikilfenglegt. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert