Freki kallinn vill „ekkert veganbull“

Freki kallinn er með einkanúmer á bílnum sem hann staðgreiddi …
Freki kallinn er með einkanúmer á bílnum sem hann staðgreiddi eins og sjá má á teikningu Lóu Hjálmtýsdóttur. Teikning/Lóa Hjálmtýsdóttir

„Sorrí með mig! Má aldrei segja neitt? Leiðindi út í eitt.“ Þannig hljómar upphaf viðlags nýs lags hljómsveitarinnar Baggalúts sem heitir einmitt Sorrí með mig. Texti lagsins og nótur þess hafa þegar verið birtar en það verður þó ekki fyrr en á morgun sem það verður formlega útgefið og þá á Spotify, „eins og hjá unga fólkinu,“ segir Bragi Valdimar Skúlason, höfundur lags og texta. 

Uppfært, föstudagur: Lagið hefur nú verið gefið út og neðst í fréttinni er hægt að hlusta á það. 

Textinn er beittur, eins og oft áður hjá Baggalútsmönnum, og í þetta sinn er sungið um freka kallinn, sem telur sig almennt góðan gaur sem vilji ekkert veganbull, ekkert mjólkurkaffisull, „en ef ég nefni það fer góða fólkið strax af stað“.

Hann býr svo í Garðabænum, því þar er minnst af Vinstri grænum. „Áetta, máetta. Káfar það upp á þig?“

Æsispennandi barnaafmæli

Blaðamanni mbl.is lék forvitni á að vita hver forsaga textans væri og hafði því samband við Braga sem gat þó ekki svarað strax sökum anna. „Ég var að ljúka æsispennandi barnaafmæli,“ sagði hann alvarlegur í bragði er hann hringdi til baka.

„Það eru fleiri sem lesa textann ef þeir fá þetta svona, án þess að laglínan sé alltaf að þvælast fyrir,“ segir hann um ástæður þess að ákveðið var að fara þá leið að birta nótur og texta áður en lagið er gefið út.

Heldur þú að einhverjir hafi þegar spreytt sig á nótunum?

„Já, ég vona það. Það voru nú einhverjir að raula þetta í barnaafmælinu hér áðan,“ svarar Bragi að bragði.

Hann segir að hugmyndin að textanum hafi fæðst í kringum frasann „sorrí með mig“, sem fólk beiti fyrir sig í tíma og ótíma. „Þetta er eitthvað sem fólk segir áður en það þjösnast áfram,“ útskýrir Bragi, „svona afsökun sem það setur fram þegar það veit að það er að gera eitthvað af sér en er eiginlega bara alveg sama.“

Sá sem lagið fjallar um er ögn í yfirvigt og setur á sig allt of sterka lykt. Þá ekur hann um á dísilbíl sem hann fékk á fínum díl. Svo kýs hann flokkinn sinn á laun en flokkar hins vegar ekki baun.

Er freki kallinn að verða fyrirferðameiri í íslensku samfélagi að þínu mati?

„Freki kallinn er víða og af ýmsum kynjum. Hann er misfrekur og kemur alltaf á tíu ára fresti,“ svarar Bragi en þess má geta að í haust verða tíu ár frá upphafi íslenska efnahagshrunsins. „Hann vex mjög mikið og svo springur hann. Þá fer lítið fyrir honum um stund en svo er hann bara mættur aftur.“

Liðsmenn Baggalúts eru „desemberkallar“ segir Bragi Valdimar Skúlason. En nú …
Liðsmenn Baggalúts eru „desemberkallar“ segir Bragi Valdimar Skúlason. En nú er væntanlegt nýtt sumarlag frá sveitinni. Ljósmynd/Aðsend

Heldur þú að einhver taki þetta til sín, sem sungið er um í laginu?

„Jú, jú. Við Baggalútarnir eru allir orðnir þetta núna, gamlir og frekir og tökum mikið pláss,“ segir hann og hlær en dregur þetta strax til baka. „Fólk má taka þetta mismikið til sín, svona eftir þörfum. En þeir sem þurfa að taka þetta til sín munu að sjálfsögðu ekki taka þetta til sín. Það er nú yfirleitt þannig.“

Síðasta sumar gaf Baggalútur einnig út sumarlag, Grenja með Sölku Sól. „Undanfarin ár höfum við nú verið voðalega miklir desemberkallar,“ segir Bragi en jólatónleikar Baggalúts eru orðnir fastur þáttur í tilveru margra. 

Hann á ekki von á því að Baggalútur komi fram á næstu vikum til að flytja nýja lagið. „Það gerist í fyrsta lagi í haust og þá líklega á Græna hattinum á Akureyri án þess að nokkuð sé ákveðið í því sambandi.“

Bragi segir að „her af snillingum“ hafi komið að upptökum lagsins í hljóðverinu. Guðmundur Pálsson syngur megnið af því „en Kalli kemur þarna sterkur og frekur inn“. Þá syngja Bryndís Jakobsdóttir og Sigurður Guðmundsson einnig „og fullt af góðu liði. Það er öllu tjaldað til“.

Listakonan Lóa Hjálmtýsdóttir teiknaði svo mynd af „freka kallinum“ fyrir útgáfu lagsins og Bragi segist sérstaklega ánægður með hana. „Hann er með tvö úr eins og Maradona,“ bendir hann á. „Þumalfingurshring, einkanúmer og staðgreiðslutákn á húddinu. Þetta er allur pakkinn.“

Freki kallinn tekur nefnilega mikið pláss og ef hann finnur stæði finnst honum best að leggja í bæði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert