Verða að vera við ýmsu búin

Frá rásmarkinu í KIA Gullhringnum á Laugarvatni.
Frá rásmarkinu í KIA Gullhringnum á Laugarvatni. Ljósmynd/KIA Gullhringurinn

„Þessi endalausa vætutíð sem er búin að vera í sumar setti endalaust strik í reikninginn og spár gengu ekki eftir sem varð til þess að það þurfti að fresta verkefnum síendurtekið,“ segir Einar Bárðarson, einn forsvarsmanna KIA Gullhringsins. Fresta þurfti hjólreiðakeppninni fyrr í sumar, vegna vegaframkvæmda á keppnisleiðinni.

„Ég hef séð alls konar aðila kommenta á þetta sem voru ekki með þær upplýsingar sem við höfðum í höndunum og voru ekki í sambandi við Vegagerðina á tveggja tíma fresti. Það var ekkert annað en öryggi keppenda sem var haft að leiðarljósi þegar við tókum þessa ákvörðun,“ segir Einar.

Margir keppendur urðu ósáttir þegar í ljós kom að ekki yrði hægt að fá keppnisgjöld endurgreidd. Þá bentu einnig margir á með hve litlum fyrirvara hætt hafði verið við keppnina og héldu margir því fram að mótshöldurum hefði átt að vera ljóst um stöðu mála fyrr.

„Þegar það var komið fram á fimmtudag var okkur orðið ljóst að stór kafli af keppnisleiðinni, sem lagt hafði verið á nokkrum dögum fyrr, hafði eyðilagst og var óhjólafær. Af þeim sökum héldu Vegagerðin og verktakinn að sér höndum um að hefjast handa á öðrum stað sem var líka stór kafli í keppninni.

Fresta þurfti hjólreiðakeppninni fyrr í sumar.
Fresta þurfti hjólreiðakeppninni fyrr í sumar. Ljósmynd/KIA Gullhringurinn

„Úr því sem komið var ráðast þeir í að fletta ofan af malbiki á öðrum stað. Þeir náttúrulega taka bara ákvarðanir á sínum forsendum þó að þeir hafi verið tilbúnir til þess að gera keppnishald hægt alls staðar,“ segir Einar en keppnin átti að fara fram á laugardeginum eftir.

Flestir taka áfram þátt 

Einar segir það hafa komið skýrt fram í keppnisreglum Gullhringsins að keppnisgjöld fáist ekki endurgreidd. Mótshaldarar hafi þó viljað öllu framar koma til móts við keppendur sem ekki eiga heimangengt 25. ágúst og því boðið upp á nafnabreytingar á keppnisgögnum endurgjaldslaust.

Það voru þó margir ósáttir við þá málamiðlun og brugðust mótshaldarar þá við með því að bjóða einnig upp á það keppnisgögnin yrðu færð fram á næsta ár. Þá segir Einar að langflestir hafi verið sáttir með þær úrlausnir þó svo að þorri keppenda taki áfram þátt í keppninni í ár.

„Það eru um þrjátíu aðilar sem vilja láta nafnabreyta keppnisgögnunum sínum eða flytja þau fram á næsta ár af 560 keppendum sem voru skráðir. Það er ekkert mjög stór hluti en auðvitað er það leiðinlegt að geta ekki klárað keppnina á réttum tíma. Við verðum bara að vera viðbúin því hérna á Íslandi að ýmislegt getur komið upp á.“

Þá segir Einar að eftir því sem hann komist næst sé framkvæmdum á keppnisleiðum að ljúka og munu aðstandendur keppninnar fara og kanna aðstæður strax að verslunarmannahelginni lokinni.

„Við hlökkum svo bara til að sjá keppendur og áhorfendur á Laugarvatni 25. ágúst. Vonandi verður bara hægt að halda keppnina með reisn og hafa ótrúlega gaman.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert