Sólarlítið en hlýtt um helgina

Spáð er rigningu og einhverju roki í Vestmannaeyjum um verslunarmannahelgina …
Spáð er rigningu og einhverju roki í Vestmannaeyjum um verslunarmannahelgina á sunnudag og mánudag. mbl.is/Ófeigur

Almennt séð er búist við sólarlitlu en hlýju veðri á landinu um verslunarmannahelgina.

Að sögn Þorsteins V. Jónssonar, veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands, er spáð suðvestanátt og skúrum víða um land á morgun og dembur geta komið síðdegis.

Á föstudaginn er spáð rigningu sunnan- og vestanlands og bætir í þegar líður á kvöldið en ekki verður hvasst í veðri. Úrkomuminna verður norðaustan til og ágætishlýindi þar en þar má reikna með síðdegisskúrum.

Laugardagurinn verður góður í flestum landshlutum. Hitinn verður á bilinu 15 til 18 stig sunnan- og vestanlands.

Frá Akureyri. Hitinn fer upp í 20 stig fyrir norðan …
Frá Akureyri. Hitinn fer upp í 20 stig fyrir norðan á sunnudaginn. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

20 stig fyrir norðan á sunnudag

Á sunnudeginum fer hitinn upp í 20 stig fyrir norðan og þar verður heitt og þurrt. Sama dag kemur lægð í heimsókn til landsins. Hvessa fer af austri síðdegis og rigning verður sunnan til.  

Á frídegi verslunarmanna verður kominn austan strekkingsvindur víða og bleyta í flestum landshlutum. Minnsta vætan verður á Vesturlandi en mest fyrir austan. Hlýindi verða áfram á landinu.

„Það næðir svolítið um þjóðhátíðargestina síðustu daga hátíðarinnar,“ segir Þorsteinn og bætir við að veðrið um helgina verði breytilegt en hlýtt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert