Skjót viðbrögð vegfarenda skiptu sköpum

Vel gekk að ráða niðurlögum eldsins, en skjót viðbrögð vegfarenda …
Vel gekk að ráða niðurlögum eldsins, en skjót viðbrögð vegfarenda skiptu sköpum. mbl.isHallur

Fimm gyltur drápust í eldsvoða í gripahúsi Stjörnugríss í Saltvík á Kjalarnesi í nótt og aflífa þurfti fimm til viðbótar. Þetta segir Geir Gunnar Geirsson, eigandi Stjörnugríss, í samtali við mbl.is. Um 160 grísir voru í húsinu þegar eldurinn kom upp um klukkan eitt í nótt.

Geir segir húsið mjög vel hólfað niður sem gerir það að verkum að reykurinn náði lítið að berast um. Tjónið er því á frekar afmörkuðu svæði, en töluvert engu að síður. Skepnurnar sem drápust voru gyltur, en þær eru verðmætustu dýrin í húsinu, að hans sögn. Þá þarf einnig að meta tjónið út frá því hvernig dýrin takast á við eftirköst brunans. Geir segir að skepnurnar hafi þó verið furðu rólegar þegar hann kom á staðinn í nótt og þakkar hann það góðri hólfun hússins.

Húsið er vel hólfað niður og reykurinn náði því ekki …
Húsið er vel hólfað niður og reykurinn náði því ekki að berast um. mbl.is/Hallur

Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu mátti litlu muna að verr færi, en þakka má skjótum viðbrögðum vegfarenda sem varð eldsins var og hafði samband við Neyðarlínuna. Aðeins hafi verið um mínútuspursmál að ræða. Ekki var mikill eldur í húsinu þegar að var komið, en hefði hann fengið að krauma aðeins lengur hefði hann hæglega náð að breiðast um húsið.

Geir segir að meta þurfi tjónið út frá því hvernig …
Geir segir að meta þurfi tjónið út frá því hvernig dýrin takast á við eftirköst brunans. mbl.is/Hallur

Talið er að kviknað hafi í út frá vél­um í loftræsti­kerfi húss­ins og logaði eldur í þaki þess. Geir segir þetta í fyrsta skipti í 40 ár sem slíkt gerist. Hann þakkar slökkviliðinu fyrir frábært starf, en vel gekk að ráða niðurlögum eldsins og var slökkvistarfi lokið um klukkan fjögur í nótt. Reykræst­ing var hins veg­ar tíma­frek.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fer með rannsókn brunans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert