Rannsóknarnefnd samgönguslysa skoðar vélarbilunina

Rannsóknarnefnd samgönguslysa rannsakar m.a. orsakir flugslysa.
Rannsóknarnefnd samgönguslysa rannsakar m.a. orsakir flugslysa. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Sérfræðingar hjá rannsóknarnefnd samgönguslysa rannsaka nú vélarbilun í flugvél Air Iceland Connect sem upp kom um miðjan dag í gær. Í framhaldi mun niðurstaða þeirrar rannsóknar verða lögð fyrir hina eiginlegu nefnd. 

Rannsóknarnefnd samgönguslysa starfar á grundvelli laga nr. 18/2013 og hefur það hlutverk að leiða í ljós orsakir samgönguslysa og samgönguatvika.

Ragnar Guðmundsson, rannsakandi hjá flugsviði rannsóknarnefndar samgönguslysa, segir að rannsókn sé nú í fullum gangi. 

„Þegar lýst er yfir neyðarástandi þá er kallað út viðbragðsteymi: slökkvilið, lögregla, við og fleiri. Þá hefjum við okkar rannsókn. Við fórum og skoðuðum vélina þegar hún var dregin inn í skýlið og þar var gerð bilanagreining. Við erum bara að vinna í þessu núna, við rannsökum hvað gerðist og síðan er það lagt fyrir hina eiginlegu nefnd,“ segir Ragnar.

Hann segir ekki enn ljóst hvenær nefndin muni koma saman en hún hefur fjölda mála til meðferðar. Þó segir hann að forgangsraðað sé eftir alvarleika slysa sem inn á borð nefndarinnar koma. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert