Ósáttur við svör Isavia

Bílastæði við flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Bílastæði við flugstöð Leifs Eiríkssonar. mbl.is/ Víkurfréttir Hilmar Bragi Bárðarson

„Ég er ekki sáttur. Ég ætla að óska eftir því að úrskurðanefnd [um upplýsingamál] fjalli um þetta efnislega og taki afstöðu til þess hvort þetta sé fullnægjandi svar eða hvort almenningur eigi rétt á því að fá þessar upplýsingar,“ segir Jónas Guðmundsson, formaður Samgöngufélagsins í samtali við mbl.is.

Tilefnið er nýjasta svar Isavia við fyrirspurn Samgöngufélagsins um tekjur vegna langtímabílastæða utan við Flugstöð Leifs Eiríkssonar.

Kærði töf á afgreiðslu fyrirspurnarinnar

Með bréfi 21. apríl 2017 óskaði Samgöngufélagið eftir því að Isavia upplýsti um tekjur vegna gjaldskyldra bílastæða við Keflavíkurflugvöll. Beiðnin var ítrekuð 28. nóvember sama ár.

Í fyrirspurninni var m.a. óskað eftir því að upplýst yrði um tekjur af afnotum bílastæðanna sl. þrjú ár og hvernig þeim tekjum hafi verið varið. Auk þess var spurt um fjölda gjaldskyldra bílastæða. Þá var spurt hver hafi tekið ákvörðun um gjaldtöku og í hvaða formi hún hefði verið.

Samgöngufélagið kærði töf á afgreiðslu fyrirspurnarinnar 8. febrúar 2018 og henni var loks svarað þremur vikum síðar, 21. febrúar.

Í svari Isavia kom fram að félagið veiti ekki upplýsingar um skiptingu tekna félagsins umfram það sem komi fram í ársreikningi og var beiðninni hafnað með vísan til þess að um mikilvæga viðskiptahagsmuni væri að ræða.

Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Flugstöð Leifs Eiríkssonar. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Synjun Isavia skorti rökstuðning

Samgöngufélagið kærði synjun Isavia til úrskurðarnefndar um upplýsingamál sem taldi synjun Isavisa innihalda efnislega annmarka. Úrskurðarnefndin felldi synjunina úr gildi og gerði Isavia að taka fyrirspurn Samgöngufélagsins til meðferðar að nýju.

Í niðurstöðu nefndarinnar segir: „Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál skortir verulega á að tekin hafi verið rökstudd afstaða til gagnabeiðni kæranda líkt og upplýsingalög gera ráð fyrir. Hin kærða ákvörðun er þannig haldin efnislegum annmörkum sem eru að mati nefndarinnar svo verulegir að ekki verður hjá því komist að fella hana úr gildi og leggja fyrir Isavia ohf. að taka málið til nýrrar og lögmætrar meðferðar.“

Vísar til viðskiptahagsmuna og samkeppnissjónarmiða

Í nýju svari frá Isavia sem barst Samgöngufélaginu á fimmtudag tekur Isavia aftur fram að félagið veiti ekki upplýsingar um tekjur aðrar en þær sem koma fram í árskýrslu. Það sé vegna mikilvægra viðskiptahagsmuna og til að koma í veg fyrir röskun á samkeppni.

Þá kemur fram að upplýsingar um það hvernig tekjum vegna bílastæða við Keflavíkurflugvöll sé varið séu ekki fyrirliggjandi og því sé Isavia ekki skylt að svara þeirri spurningu.

„Ég kaupi þetta ekki,“ segir Jónas um svar Isavia og telur að almenningur eigi rétt á því að vita í hvað fjármunirnir fara.

Í svari Isavia kemur einnig fram að ákvörðun um innheimtu gjalds fyrir bílastæði og form hennar hafi verið tekin fyrir 1. júlí 2013 og gögn um þá ákvörðun sem séu fyrirliggjandi falli utan gildissviðs upplýsingalaga.

Jónas er einnig ósáttur við það svar. „Maður fær ekki einu sinni að vita hvernig staðið er að ákvörðunum. Þetta er eitthvað sem er ákveðið og birt. Enginn svarar fyrir þetta,“ segir Jónas sem ætlar, eins og áður segir að vísa svari Isavisa til úrskurðarnefndar upplýsingamála að nýju.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert