Stór sprunga í skriðusárinu

Sprungan hefur opnast á fjallinu skammt frá brotsári framhlaupsins.
Sprungan hefur opnast á fjallinu skammt frá brotsári framhlaupsins. Ljósmynd/Jens Þór Sigurðarson/Landhelgisgæslan

Stór sprunga hefur myndast innan við skriðusárið í Fagradalsfjalli í Hítardal. Efnið mun líklega falla ofan á framhlaupsurðina sem myndaðist þegar skriðan féll. Þetta kemur fram í frétt á vef Veðurstofunnar.

Að morgni 7. júlí féll stór skriða eða fram­hlaup úr Fagra­skóg­ar­fjalli í Hít­ar­dal. Skriðan fór yfir Hítará og stíflaði hana með þeim af­leiðing­um að lón myndaðist ofan skriðutung­unn­ar.

Sprungan uppgötvaðist síðustu helgi þegar starfsmenn Landhelgisgæslunnar voru með æfingar í grennd við framhlaupið í Hítardal. Sprungan hefur opnast á fjallinu skammt frá brotsári framhlaupsins og er á sömu slóðum og hrunið sem varð úr toppi framhlaupsins 13. júlí í innanverðu skriðusárinu.

Hildur María Friðriksdóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir í samtali við mbl.is að sprungan hafi myndast á síðustu tveimur til þremur vikum, ef litið er til loftmynda af svæðinu. Hún segir það eðlilegt að óstöðugleiki myndist á svæðinu eftir svona stóra skriðu. Sérfræðingar á sviði skriðufalla rannsaka nú sprunguna og búast má við frekari niðurstöðum á næstu dögum. 

Veðurstofan greinir frá því að spildan sem hefur losnað frá brún fjallsins er á bilinu 50-150 þúsund rúmmetrar en hrun af þessari stærðargráðu er ekki talið geta borist langt niður á láglendi og mun efnið líklega falla ofan á framhlaupsurðina sem myndaðist í júlí.  

Algengt er að hreyfingar eða hrun eigi sér stað í sárum þar sem framhlaup eða stórar skriður hafa átt sér stað og vill Veðurstofan því ítreka að fólk ætti ekki að vera í nánasta nágrenni við skriðuna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert