„Túristavörtur“ valda jarðvegsrofi

Vörður í Hverafjalli sem eru hlaðnar án þess að vera …
Vörður í Hverafjalli sem eru hlaðnar án þess að vera vegvísar. Þetta er tískufyrirbrigði. Sumir kalla þær túristavörtur. mbl.is/Árni Tryggvason

„Sumir kalla þetta túristavörtur, það segir nú sitt. Ein varða kallar á fleiri vörður,“ segir Árni Tryggvason leiðsögumaður.

Vörður sem eru ekki byggðar í þeim tilgangi að vera leiðarvísar eru umdeildar og hafa verið viðvarandi vandamál lengi að mati ýmissa.

„Sumum finnst þetta vera list á meðan aðrir telja þetta ónauðsynlega umbreytingu á landinu. Ég er einn af þeim síðarnefndu. Þær eru ófáar vörðurnar sem ég hef sparkað um koll en maður þarf bara að þekkja muninn á því hverjar eru alvöru og hverjar ekki,“ segir Árni. Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag telur hann þó ástandið vera að batna.

„Ég er búin að vera töluvert á flandri núna, til dæmis var ég uppi á Kili í fyrradag og þar fannst mér ég sjá lítið af þessu en þar var mikið um vörður fyrir nokkrum árum. Ég vona því að fólk sé að taka sig á og að við reiðu mennirnir höfum fengið einhverju áorkað.“

Slæmar afleiðingar

Árni segir vörðugerð geta haft umtalsverð áhrif á umhverfið. „Með því að taka upp stein rýfur þú jarðveginn. Ef þarna er svæði þar sem er viðkvæmur jarðvegur og þú ferð að rífa upp alla steina þá ertu farinn að mynda grundvöll og upphaf fyrir jarðvegsrofi, uppblæstri, vatnsrofi. Auk þess umbreytir þetta landslaginu sem ætti bara að fá að vera í friði, við spillum því nógu mikið samt.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert