Var í ljósum logum er slökkvilið kom

Um 30 slökkviliðsmenn frá Brunavörnum Árnessýslu tóku þátt í að …
Um 30 slökkviliðsmenn frá Brunavörnum Árnessýslu tóku þátt í að ráða niðurlögum eldsins. Mynd úr safni. Ljósmynd/Brunavarnir Árnessýslu

Miklar skemmdir urðu á pökkunarhúsi sem eldur kom upp í að Reykjaflöt á Flúðum í gærkvöldi. Þetta segir Pét­ur Pét­urs­son, slökkviliðsstjóri Bruna­varna Árnes­sýslu. Greiðlega gekk að slökkva eldinn í pökkunarstöðinni, en hún var í ljósum logum er slökkvilið kom á vettvang.

Um 30 slökkviliðsmenn tóku þátt í að ráða niðurlögum eldsins, en pökkunarstöðin er um 200 m2 og tilheyrir gróðrastöð á Flúðum.  

„Það var búið að slá verulega á eldinn um 20 mínútum eftir að við komum á staðinn, síðan snerist þetta meira um að slökkva í glæðunum,“ segir Pétur, en tilkynnt var um eldinn rétt fyrir níu í gærkvöldi.  

Sums staðar reyndist slökkviliði erfitt að komast að logunum vegna járnplatna og annars slíks sem í húsinu var. Þá þurfti einnig að rjúfa klæðningar og annað til að komast í glóð. „Það var ýmislegt þarna inni sem er eldfimt eins og yfirleitt er,“ bætir Pétur við og segir húsið vera mikið skemmt eftir brunann.

Vinnu á vettvangi var lokið um eittleytið í nótt.

Engar skemmdir urðu á öðrum húsum, enda var vindátt hagstæð og nokkur fjarlægð í næstu hús. „Það barst reykur um gróðurhúsin, en það var ekki ræktun í gangi þar og því virðast ekki hafa orðið skemmdir á ræktun,“ segir Pétur.

Eldsupptök eru ókunn en lögreglan á Suðurlandi fer með rannsókn málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert