Nálgunarbann við eigið heimili staðfest

Maðurinn mun sæta nálgunarbanni til 29. ágúst.
Maðurinn mun sæta nálgunarbanni til 29. ágúst. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Landsréttur staðfesti í gær dóm Héraðsdóms Vesturlands um að lögreglustjóranum á Vesturlandi hafi verið heimilt að vísa manni af heimili sínu á grundvelli laga um nálgunarbann.

Í greinargerð lögreglu kemur fram að henni hafi 1. ágúst borist beiðni maka mannsins um að honum yrði gert að sæta brottvísun af lögheimili þeirra. Beiðnin hafi verið rökstudd með vísan til þess að kærði hefði kvöldið áður beitt makann ofbeldi og haft í hótunum, auk þess sem hann hefði brotið húsgögn. Fyrir dómi liggur staðfesting læknis á heilsugæslu um að makinn hafi verið marinn á handlegg og með eymsli við olnboga vegna árásarinnar.

Í gögnum lögreglu séu upplýsingar um fjölmörg afskipti af kærða vegna ófriðar. Lögregla hafi því tekið ákvörðun um að maðurinn skyldi sæta fjögurra vikna nálgunarbanni af heimili sínu og farið þess á leit við héraðsdóm að hann staðfesti úrskurðinn, í samræmi við 12. grein laga um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Það gerði héraðsdómur 8. ágúst, en maðurinn áfrýjaði til Landsréttar sem staðfesti, sem fyrr segir, dóminn.

Fram kemur í dómnum að maðurinn hafi við skýrslutöku hjá lögreglu 3. ágúst sagst una ákvörðun lögreglustjóra um brottvísun af heimili og að frásögn hans af atburðarásinni kvöldið 31. júlí „samræmdist í öllum aðalatriðum frásögn brotaþola“.

Maðurinn mun því sæta nálgunarbanni til miðvikudagsins 29. ágúst klukkan 16. 

Ríkissjóður greiðir málsvarnarlaun lögmanns mannsins, Bjarna Haukssonar, 100.000 krónur fyrir héraðsdómi og 250.000 krónur fyrir Landsrétti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert