Íslenska módelið virkar

Tómstundastarf er lykilþáttur í forvörnum á Íslandi, segir Margrét.
Tómstundastarf er lykilþáttur í forvörnum á Íslandi, segir Margrét. Þórður Arnar Þórðarson

Þátttaka í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi nær hámarki í 7.-8. bekk þegar um 80% ungmenna eru virk í hverri viku, þar af 60% í íþróttum. Eftir það hefst brottfall barna af alvöru. Þetta er meðal þess sem fram kom í fyrirlestri Margrétar Lilju Guðmundsdóttur félagsfræðings á alþjóðlegri ráðstefnu um jafnrétti í íþróttum sem lauk í dag í Háskólanum í Reykjavík.

Margrét byggði erindi sitt á rannsóknum Rannsókna og greiningar á ungu fólki og þátttöku íslenskra unglinga í félagsstörfum, sem hún segir ótrúlega góða í samanburði við aðrar þjóðir. „Við höfum eitthvað sem við köllum íslenska módelið,“ segir Margrét en í því felst að litið er á tómstundastarf sem lykilþátt í öllu forvarnastarfi. Menntaðir þjálfarar frá því íþróttaþátttaka barna hefst, mikið framboð íþróttagreina fá unga aldri og stuðningur hins opinbera, til dæmis í formi frístundastyrks sveitarfélaga, skipti sköpum.

Margrét Lilja Guðmundsdóttir.
Margrét Lilja Guðmundsdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Margrét starfar á íþróttasviði HR auk þess að vinna hjá Rannsóknum og greiningu. Fram kom í fyrirlestri hennar að vímuefnanotkun íslenskra ungmenna á aldrinum 15-16 ára hefði snarminnkað frá árinu 1998, þegar Íslendingar vermdu toppsætið yfir mestu vímuefnanotkun unglinga í Evrópu en það ár sögðust 42% tíundubekkinga hafa drukkið áfengi síðastliðinn mánuð. Árið 2016 var þetta hlutfall komið niður í 6% og er hvergi lægra í Evrópu.

Brottfall eðlilegt og aðalástæðan áhugaleysi

Aðspurð segir Margrét að brottfall úr íþróttastarfi sé á vissan hátt eðlilegt. „Þegar við höfum jafnhátt hlutfall barna í tómstundastarfi og raun ber vitni er eðlilegt að margir detti út með aldrinum.“ Eftir því sem krakkar eldast aukist áhersla innan íþrótta á keppni og segir Margrét það ekki henta öllum.

Í könnun Rannsókna og greiningar eru börn meðal annars spurð út í ástæður þess að þau hætti í tómstundum. Spurningin er krossaspurning og geta þau valið fleiri en eina ástæðu, ef við á. 80% barna nefna að þau hafi misst áhugann á því sem þau æfðu og er ómarktækur munur á svörum milli kynja. 

Marktækur munur reynist hins vegar á fjölda þeirra sem nefna það sem ástæðu að vinir þeirra hafi ætt að æfa. Það gera 47% stráka en aðeins 37% stelpna.

Erlend börn taka síður þátt

Áhyggjur Margrétar snúa frekar að jaðarsettum hópum. Í könnun Rannsókna og greiningar kemur fram að 36% barna í 8.-10. bekk, sem tala eingöngu íslensku heima hjá sér, taka ekki þátt í skipulögðu tómstundastarfi í hverri viku. Þegar litið er til barna sem tala íslensku ásamt öðru tungumáli heima er hlutfallið 46% og hjá börnum sem tala einungis annað tungumál heima fyrir er það 56%.

Sams konar niðurstöður hafa fengist í rannsóknum víða um heim, til dæmis á ÍtalíuÍrlandi, í Bandaríkjunum og Kanada. Meðal ástæðna sem hafa verið nefndar alþjóðlega eru félagslegar; innflytjendur hafi minni sambönd, þekki ekki til íþróttafélaga og viti ekki hvað stendur til boða.

Til viðbótar nefnir Margrét að erlendir foreldrar séu ekki endilega meðvitaðir um forvarnagildi íþróttastarfs á Íslandi. Það þekkist erlendis að jákvætt samband sé milli íþróttaiðkunar og áfengisneyslu, þ.e. börn sem stundi íþróttir séu líklegri til að drekka áfengi en önnur, þó að því sé öfugt farið á Íslandi. Í könnun Lýðheilsustofnunar Bandaríkjanna árið 2010 sem tók til 8.700 bandarískra barna, frá 12 ára aldri og upp úr, kom slíkt samband til að mynda í ljós.

Margrét segir mikilvægt að ná til erlendra foreldra á Íslandi og það hafi Íþróttasambandið og Ungmennafélag Ísland reynt að gera, til að mynda með því að tryggja að allt efni íþróttafélaganna sé í boði á erlendum málum. Þá nefnir hún sérstaklega verkefnið TUFF sem unnið er að í Breiðholti og miðar að því að auka þátttöku barna af erlendum uppruna í íþróttastarfi og auðvelda foreldrum þeirra aðlögun að íslensku samfélagi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert