Blýantar kláruðust en allir fengu skriffæri

Börnum í skólum Reykjavíkurborgar er boðið upp á ókeypis námsgögn.
Börnum í skólum Reykjavíkurborgar er boðið upp á ókeypis námsgögn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vel gekk að afhenda skólum Reykjavíkurborgar námsgögn sem nemendur fá afnot af endurgjaldslaust, þrátt fyrir að blýantar hafi klárast, en skólastarf hófst í flestum skólum í síðustu viku. Í fyrra var tekin ákvörðun um að bjóða upp á endurgjaldslaus námsgögn og var farið í útboð til að fá sem hagstæðast verð. Skóla- og frístundasvið ákvað að ganga til samninga við A4 um kaup á ritföngum fyrir alla nemendur í grunnskólum Reykjavíkur fyrir skólaárið 2018 – 2019.

„Í raun og veru hefur þetta gengið mjög vel. Það var verið að dreifa miklu af vörum til skólanna og við vorum að gera þetta í fyrsta skiptið. Fyrir vikið er ekkert óeðlilegt að eitthvað smávægilegt komi upp á eins og meira hafi þurft af tilgreindum vörum í einhvern skóla. Við höfum brugðist við slíku eins fljótt og kostur er. Ég hef ekki heyrt af neinu stórkostlegum mistökum þar,“ segir Hafþór Einarsson, fjármálasérfræðingur á skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar.

„Blýantar kláruðust reyndar, en þeir bárust okkur strax aftur aftur síðasta föstudag. Það voru samt allir skólar búnir að fá nóg af skriffærum til að hefja skólastarfið. Það hefur allt gengið upp þrátt fyrir skamman fyrirvara, því það er ekki langt síðan útboðið kláraðist,“ bætir hann við.

„Við hérna erum alla vega hæstánægð með hvernig þetta hefur gengið og hvernig skólarnir hafa tekið þessu.“ Þá segir Hafþór samstarfið við A4 einnig hafa gengið mjög vel.

Verkefnið var ansi umfangsmikið og þurfti að hafa hraðar hendur til að allt yrði tilbúið í tæka tíð. Innkaup geta verið mjög mismunandi á milli skóla, enda þarfir og áherslur ólíkar.

„Í grunninn var þetta þannig að við vorum með vörulista yfir pappír og ritföng, svo fengum við ábendingar frá skólastjórum sem voru í samráði við sína  starfsmenn um hvað þyrfti. Í kjölfarið var greint hve mikið magn þyrfti af hverri og einni vörutegund, til hvers skóla fyrir sig. Í einum skóla geta til dæmis verið fimm eða sjö blýantar á hvern nemanda en annars staðar eru þeir þrír. Þá eru þar kannski notaðir skrúfblýantar á móti,“ útskýrir Hafþór.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert