Dulbjuggu sig sem öryggisverði

Sindri Þór Stefánsson og aðrir sem ákærðir eru fyrir innbrot …
Sindri Þór Stefánsson og aðrir sem ákærðir eru fyrir innbrot í gagnaver um síðustu áramót dulbjuggu sig sem öryggisverði er þeir brutust inn í eitt gagnaveranna.

Sindri Þór Stefánsson og aðrir sem ákærðir eru fyrir innbrot í gagnaver um síðustu áramót dulbjuggu sig sem öryggisverði er þeir brutust inn í eitt þeirra. Frá þessu er greint á fréttavef RÚV, sem hefur ákæru lögreglustjórans á Suðurnesjum undir höndum.

Ákæra í málinu var gefin út í byrjun júlí, en hún var ekki birt sakborningum fyrr en í síðustu viku og varðar innbrot í fjögur gagnaver þrjár nætur í desember og janúar og tilraunir til tveggja innbrota í viðbót. Yfir tvö þúsund tölvuíhlutum er sagt hafa verið stolið í innbrotunum.

Sjö eru ákærðir í málinu og er ákæran sögð vera í tíu liðum, en tveir þeirra séu þó ótengdir innbrotunum.

Fyrst var brotist inn dagana 5. og 6. desember í gagnaver Algrim Consulting slf. og BDC Mining ehf., sem bæði eru á Ásbrú. Þá hafi verið reynt, án árangurs, að fara inn í annað gagnaver BDC Mining  á tímabilinu 5.-10. desember.

Aðfaranótt 15. desember hafi svo verið farið inn í gagnaver AVK ehf. í Borgarnesi og aðfaranótt annars í jólum hafi aftur verið reynt við bæði gagnaver BDC Mining ehf. á Ásbrú. Mennirnir hafi hins vegar flúið er þjófavarnakerfi fór í gang.

Síðasta innbrotið var svo framið aðfaranótt 16. janúar og var það í gagnaveri Advania Data Center á Ásbrú.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert