10 þúsund tölvupóstar vegna hvalveiða

Langreyður dregin inn í hvalstöðina í Hvalfirði.
Langreyður dregin inn í hvalstöðina í Hvalfirði. mbl.is/Golli

Íslenskum stjórnvöldum bárust rúmlega tíu þúsund tölvupóstar frá einstaklingum vegna ákvörðunar Hvals hf. um að hefja hvalveiðar að nýju 6. júlí. Það er umtalsvert minna en árið 2006 þegar atvinnuhvalveiðar hófust.

Þetta kemur fram í svari utanríkisráðherra við fyrirspurn Þorgerðar K. Gunnarsdóttur um mótmæli gegn hvalveiðum og viðskiptahagsmuni.

Hluti þessara 10 þúsund skeyta barst eftir að blendingshvalur veiddist við Ísland.

Fram kemur að 25 ríki hafi mótmælt hvalveiðum Íslendinga árið 2006, auk þess sem framkvæmdastjórn ESB sendi orðsendingu.

Tölvustýrð fjölskeytahrina reið yfir Stjórnarráðið fyrst eftir að tilkynnt var um atvinnuveiðarnar.

„Ekki virðast margir einstaklingar hafa verið á bak við hana heldur var fjölskeytahugbúnaði beitt með sama hætti og þegar vísindaveiðarnar hófust,“ segir í svarinu.

mbl.is