Kynna sameiginlegt norrænt útboð á lyfjum

Möguleikar á sameiginlegum lyfjainnkaupum Norðurlandaþjóðanna hafa verið til umræðu um …
Möguleikar á sameiginlegum lyfjainnkaupum Norðurlandaþjóðanna hafa verið til umræðu um árabil. mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Kynning á fyrirhuguðu sameiginlegu lyfjaútboði Danmerkur Íslands og Noregs fer fram í Kaupmannahöfn 28. september. Kynningin er á vegum lyfjainnkaupasambands Danmerkur, Amgros, að því er fram kemur í tilkynningu á vef Landspítalans.

Völdum tilboðsgjöfum er boðið á kynninguna. „Að henni lokinni gefst tækifæri til umræðna um útboðskröfur, markaðsleyfi, afhendingu og dreifingu umræddra lyfja,“ segir í tilkynningu.

Möguleikar á sameiginlegum lyfjainnkaupum Norðurlandaþjóðanna hafa verið til umræðu um árabil og segir á vef velferðarráðuneytisins að um tímamót sé að ræða og að litið sé á útboðið sem reynsluverkefni til að afla þekkingar á ýmsum hagnýtum þáttum slíkra útboða.

„Vonir eru bundnar við að með sameiginlegum innkaupum og þar með stærri markaði skapist samlegðaráhrif sem leiði til aukinnar hagkvæmni og lægra lyfjaverðs og tryggi betur fullnægjandi framboð lyfja hjá hlutaðeigandi þjóðum,“ segir í tilkynningu frá ráðuneytinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert