Leggja til hækkun útvarpsgjalds

Áætluð framlög til Ríkisútvarpsins aukast um 535 milljónir frá síðasta …
Áætluð framlög til Ríkisútvarpsins aukast um 535 milljónir frá síðasta fjárlagafrumvarpi. mbl.is/Eggert

Framlög ríkisins til Ríkisútvarpsins munu verða 4.645 milljónir króna á árinu 2019 samkvæmt nýju fjárlagafrumvarpi, en það er 535 milljónum meira en gert var ráð fyrir í fjárlögum 2018.

Ríkisstjórnin hyggst leggja til að útvarpsgjald hækki um 2,5%, í samræmi við forsendur framlagðs fjárlagafrumvarps.

Þess ber að geta að þessi fyrirhugaða hækkun útvarpsgjaldsins er í takt við hækkanir annarra krónutölugjalda, svo sem áfengis- og tóbaksgjalds.

Í ár er útvarpsgjaldið 17.100 kr. og er það lagt á alla einstaklinga á aldrinum 16-70 ára, nema þá sem eru með tekjur undir skattleysismörkum og þá elli- og örorkulífeyrisþega sem dvelja á dvalar- og hjúkrunarheimilum.

Gangi áætluð 2,5% hækkun útvarpsgjalds eftir þýðir það að búast má við því að útvarpsgjaldið verði a.m.k. 17.500 krónur á næsta ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert