Fjórum milljörðum undir áætlun

Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra. mbl.is/​Hari

Heildarútgjöld, gjöld og fjárfesting, þeirra málaflokka sem heilbrigðisráðherra ber ábyrgð á námu 182,7 milljörðum króna árið 2017. Áætlun ársins gerði ráð fyrir að heildarútgjöldin á árinu yrðu 186,7 milljarðar króna. Endanleg útkoma reyndist því vera tæpum 4 milljörðum undir áætlun eða sem nemur um 2,1%.

Þetta kemur fram í ársskýrslu heilbrigðisráðherra.

Útgjöld málaflokka heilbrigðisráðherra eru almennt innan fjárheimilda, að því er segir í skýrslunni. Frávik einstakra málaflokka eru óveruleg en fram kemur að tilefni sé til að fjalla um frávik tveggja þeirra.

Útgjöld vegna sjúkraþjálfunar, iðjuþjálfunar og talþjálfunar voru 916 milljónum króna umfram fjárveitingar. Ástæðurnar má rekja til nýs   greiðsluþátttökukerfis sjúklinga sem var innleitt á árinu og leiddi til eftirspurnar umfram áætlanir auk þess sem einingaverð hækkaði um 80 milljónir króna á árinu umfram það sem gert var ráð fyrir.

Útgjöld vegna hjúkrunar- og dvalarrýma voru 2,7 milljörðum króna undir fjárheimildum. Ástæðurnar stafa af töfum á byggingu hjúkrunarheimila sem eru í framkvæmdaáætlun um byggingu nýrra hjúkrunarrýma. Fjárfestingarframlög verða því greidd seinna út en gert var ráð fyrir og það sama gildir um framlag vegna reksturs hjúkrunarheimila sem eru í byggingu.

Rekstrarframlög eru ekki nýtt þá mánuði sem frestunin varir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert