Vilja koma Íslandi í fremstu röð

Sigurður Ingi Jóhannsson.
Sigurður Ingi Jóhannsson. mbl.is/Eggert

„Markmiðið er skýrt hjá ríkisstjórninni. Að koma Íslandi í fremstu röð og efla samkeppnishæfni á sem flestum sviðum,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins og samgönguráðherra, í eldhúsdagsumræðum á Alþingi.

Hann sagði að ríkisstjórnin legði áherslu á fjölbreytt atvinnulíf og fjallaði lítillega um þann mikla vöxt sem hefði verið í flugsamgöngum. „Framlag þessarar atvinnugreinar til vergrar landsframleiðslu skiptir orðið miklu sem lifibrauð margra og eru margfeldisáhrifin umtalsverð. Nú er farin af stað vinna við að móta fyrstu flugstefnu á Íslandi sem mun taka á öllum þáttum er varða flugstarfsemi hér á landi.“

Sigurður sagði að hér á landi ættu að vera jöfn tækifæri fyrir alla þannig að allir nytu aukins kaupmáttar og verðmætasköpunar. Þrátt fyrir uppgang og góðæri væru ákveðnir hópar sem nytu þess ekki og það væri óásættanlegt.

Sigurður minntist á fundi aðila vinnumarkaðarins, forsvarsmanna Sambands sveitarfélaga og ríkisstjórnarinnar frá því að ríkisstjórnin var mynduð fyrir níu mánuðum. Hann sagði að þeir fundir hefðu meðal annars skilað því að Kjararáð var lagt niður og atvinnuleysisbætur og Ábyrgðarsjóður launa hefðu hækkað. „Slíkir fundir eru mikilvægt veganesti til að hlusta eftir áherslum verkalýðshreyfingarinnar og í því samtali að huga sérstaklega að lægri tekjuhópum. Að því vinnur ríkisstjórnin.“

Góðar samgöngur forsenda blómlegs mannlífs

Samgönguráðherra sagði að góðar samgöngur væru forsenda blómlegs mannlífs í landinu. Rík áhersla væri á að auka viðhald á vegakerfinu enda hefði þörfin aldrei verið meiri en nú. Hann sagði að fjármagn væri stóraukið en í ár fara 12 milljarðar til viðhalds og lagfæringa samanborið við 5,5 milljarða 2016.

„Fyrr í sumar var fjórum milljörðum bætt við gildandi áætlun þessa árs til að verja vegakerfið fyrir frekari skemmdum í kjölfar stóraukins umferðarþunga. Þá er í fjármálaáætlun gert ráð fyrir sérstöku 5,5 milljarða árlegu framlagi sem bætist við til næstu þriggja ára. Í heildina er gert ráð fyrir að 160 milljörðum verði varið í viðhald og framkvæmdir í vegakerfinu á næstu fimm árum,“ sagði Sigurður og bætti við að samgönguáætlun sem verður lögð fram í næstu vikum muni taka mið af fjármálaáætlun. Þá verður verkefnum forgangsraðað út frá umferðaröryggi og þróun undanfarin ár. 

Sigurður fjallaði einnig um aðgerðir í loftslagsmálum til næstu tólf ára sem kynntar voru á mánudag. Þar kom meðal annars fram að nýskráningar bensín- og dísilbíla yrðu almennt óheimilar eftir árið 2030.

„Ánægjulegt er að loftslagsmarkmið og efnahagslegir hvatar fara saman. Ódýrara er að reka rafmagnsbíla, jafnframt er það jákvætt að skipta út aðfluttri orku fyrir hreina innlenda orku. Til þess þarf að tryggja aðgengi að orku fyrir rafknúin ökutæki um land allt,“ sagði Sigurður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka