Vill fá átta milljónir í bætur

mbl.is/Kristinn Magnússon

Kona, sem varð fyrir alvarlegri líkamsárás í Vestmannaeyjum í september 2016, krefst átta milljóna króna í miskabætur auk vaxta frá 25 ára gömlum karlmanni sem ákærður hefur verið fyrir árásina, en ákæran var þingfest í Héraðsdómi Suðurlands í dag.

Fram kemur í frétt Ríkisútvarpsins að maðurinn sé sakaður um að hafa kýlt konuna í andlitið við skemmtistaðinn Lundann í Vestmannaeyjum. Hún hafi fallið við það og maðurinn þá veist að henni með ítrekuðum höggym og spörkum í andlit og búk. Þá hafi hann klætt hana úr öllum fötum og yfirgefið hana nakta, mikil slasaða og bjargarlausa.

Konan er sögð í ákæru hafa hlotið áverka í andliti og aftan á hnakka og sár víðar á líkamanum fyrir utan ofkælingu. Maðurinn er ákærður fyrir líkamsárás en einnig fyrir blygðunarsemisbrot fyrir að hafa komið konunni í áðurnefnt ástand. Við fyrra brotinu liggur allt að sextán ára fangelsi en því síðara allt að átta ára fangelsi.

Maðurinn var upphaflega grunaður um að hafa nauðgað konunni en hann er hins vegar ekki ákærður fyrir kynferðisbrot gegn henni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert